Ætla að leggja undir sig stærri hluta Úkraínu

Bandaríkin saka rússnesk stjórnvöld um að halda til streitu áætlunum sínum um að leggja undir sig enn meira úkraínskt landsvæði. Formaður þjóðaröryggisráðs Bandaríkjanna telur líkur á að Rússar muni grípa til „uppgerðarkosninga“ um sameiningu við Rússland á þeim landssvæðum sem rússneskar hersveitir hafa hertekið.

„Rússar eru að leggja grunninn að því að innlima úkraínskt landsvæði og brjóta þannig með beinum hætti gegn fullveldi Úkraínu,“ sagði John Kirby, talsmaður þjóðaröryggisráðs Bandaríkjanna við fréttamenn. 

Sambærilegt því sem gerðist á Krímskaga

Hann sagði að Rússar nýttu sér nú svipaðar aðferðir og við yfirtöku sína á Krímskaga. 

Líklegt er að svæði sem hertekin hafa verið af Rússum haldi „uppgerðarkosningar“ um sameiningu svæðanna og Rússlands. 

Rússar innlimuðu Krímskaga árið 2014 eftir atkvæðagreiðslu sem er almennt talin hafa verið ólögmæt. 

Kirby sagði að Bandaríkin muni ekki „láta blekkjast“ af slíkum uppgerðarkosningum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert