Gasið aftur farið að flæða til Evrópu

AFP

Gas er aftur farið að flæða til Evrópu um rússneska lykilleiðslu, Nord Stream 1, eftir 10 daga viðhaldshlé. Rússnesk stjórnvöld hafa áður varað við því að þau gætu dregið úr flæði gassins eða stöðvað það með öllu. 

Leiðslan mun aftur á móti einungis skila 40% af fullri afkastagetu en rússnesk yfirvöld skáru gasflæðið niður um 60% í síðasta mánuði. 

Í gær hvatti framkvæmdastjórn Evrópusambandsins ríki þess til að draga úr gasnotkun um 15% á næstu sjö mánuðum til öryggis ef Rússar skyldu stöðva allar sendingar á gasi til Evrópu. 

Rússland sá Evrópu fyrir um 40% af jarðgasi álfunnar á síðasta ári en úr því hefur dregið eftir að rússneskar hersveitir réðust inn í Úkraínu og ríki hafa í auknum mæli skorið á viðskiptatengsl sín við Rússland af þeim sökum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert