Hefja kornútflutning frá Úkraínu í vikunni

Frá undirritun samningsins.
Frá undirritun samningsins. AFP/Ozan Kose

Gert er ráð fyrir að kornútflutningur frá úkraínskum höfnum hefjist í vikunni, þrátt fyrir árás Rússa á Ódessa-höfn. Þetta staðfesti Oleksandr Kúbrakov, innviðaráðherra Úkraínu, í dag.

Tímamótasamningur náðist á föstudag milli Rússlands og Úkraínu um að hefja flutning á korni á ný. Degi síðar lentu tvær rússneskar eldflaugar í höfninni í Ódessa, þar sem korn er unnið til flutnings.

„Við gerum ráð fyrir að samningurinn taki gildi á næstu dögum. Við erum að undirbúa okkur fyrir að allt hefjist í þessari viku,“ sagði ráðherrann.

„Á næstu tveimur vikum verðum við tæknilega tilbúin til að framkvæma kornútflutning frá öllum úkraínskum höfnum.“

Afstaðan einföld

Lagði hann einnig áherslu á mikilvægi öryggis við höfnina í Ódessa, sem er ein af þremur útflutningsmiðstöðvum sem tilgreindar eru í samningnum.

„Afstaða okkar er mjög einföld. Við undirrituðum samning við Sameinuðu þjóðirnar og Tyrkland. Ef aðilar tryggja öryggi mun samningurinn virka. Ef þeir gera það ekki mun hann ekki virka.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert