Reynir að fá Griner lausa úr haldi

Antony Blinken, utanríkisráðherra Bandaríkjanna og bandaríska körfuboltakonan Brittney Griner.
Antony Blinken, utanríkisráðherra Bandaríkjanna og bandaríska körfuboltakonan Brittney Griner.

Bandaríkin segjast tilbúin að gefa Rússum „gott tilboð“ ef þeir framselja tvo Bandaríkjamenn, þar á meðal körfuboltakonuna Brittney Griner til Bandaríkjanna.

Þetta tilkynnti utanríkisráðherra Bandaríkjanna, Antony Blinken, í dag. Þá sagðist hann einnig myndu tala við Sergei Lavrov, utanríkisráðherra Rússa, í fyrsta sinn síðan stríðið í Úkraínu hófst.

Blinken sagðist búast við símtali á næstu dögum við Lavrov um tillöguna um að sleppa Griner ásamt bandaríska sjóliðanum Paul Whelan en Griner sagði við dómstól fyrr í dag að hún hefði óviljandi komið með bönnuð eiturlyf inn í Rússland.

Griner á yfir höfði sér tíu ára fangelsisvist.
Griner á yfir höfði sér tíu ára fangelsisvist. AFP

Fólkið „hefur ranglega verið í haldi og það verður að leyfa þeim að koma heim,” sagði Blinken við fréttamenn.

Körfuboltakona fyrir vopnasala?

Blinken neitaði þó að staðfesta fregnir um að Bandaríkin byðust til að skipta á þeim og rússneska vopnasmyglaranum Vikor Bout.

Bandaríkin og Rússland hafa nú þegar einu sinni skipst á föngum síðan stríðið í Úkraínu hófst. Í apríl fengu Bandaríkin fyrrverandi bandaríska sjóliðann Trevor Reed í skiptum fyrir eiturlyfjasmyglarinn Konstantín Jarósjenkó.

Joe Biden, forseti Bandaríkjanna, hefur verið undir miklum þrýstingi að fá Griner lausa en hún gæti átt yfir höfði sér 10 ára fangelsisvist.

Paul Whelan í dómsal í Rússlandi árið 2018.
Paul Whelan í dómsal í Rússlandi árið 2018. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert