Báðir synirnir fyrirfóru sér

Tvíburabræðurnir voru báðir með einhverfurófsröskunina Asperger-heilkenni sem lagði stein í …
Tvíburabræðurnir voru báðir með einhverfurófsröskunina Asperger-heilkenni sem lagði stein í götu lífs þeirra. Elias sá að lokum enga leið út í nóvember 2018 og bróðir hans ákvað að fylgja honum hálfu ári síðar. Eftir situr fjölskylda með ótal spurningar sem hefur ákveðið að eina leiðin áfram sé að mæta sorginni og takast á við hana. Ljósmynd/Úr einkasafni

„Eftir á er auðvelt að hugsa með sér að hefði maður bara gert það, orðað hlutina eitthvað öðruvísi, hugsað sig örlítið um, hefði ef til vill mátt koma í veg fyrir þessa hryllilegu atburði. En ég gerði það ekki.“

Þetta segir Lars Petter Kjær í Sandefjord í Noregi í samtali við norska ríkisútvarpið NRK um þá lífsreynslu að missa báða syni sína, tvíburana Benjamin og Elias, sem tóku líf sín með hálfs árs millibili árin 2018 og 2019, þá rúmlega tvítugir, fæddir 15. september 1995. Kjær veitti mbl.is góðfúslegt leyfi til að endursegja þungbæra sögu og nota myndir úr einkasafni hans sem hér fylgja.

Sjálfsvíg í Noregi hafa ekki verið fleiri síðan á tíunda áratug aldarinnar sem leið, í fyrra fyrirfóru 658 Norðmenn sér, þar af 482 karlmenn, sjálfsvíg áranna á undan voru 639 árið 2020 og 652 árið 2019. Hefur sjálfsvígum fjölgað milli ára í landinu tímabilið 2010 til 2019 samkvæmt tölfræði Dánarorsakaskrár (n. Dødsårsakregisteret). Norska ríkisstjórnin hefur markað sér núllstefnu (n. nullvisjon) í sjálfsvígum en fagfólk á sviði geðheilbrigðis kveður landsýn þar í fjarska.

Botnlaus tómleiki

Brátt verða fjögur ár síðan Elias tók líf sitt í nóvember 2018. Þeir Benjamin voru tvíburabræður sem fyrr segir og nánir eftir því. Fékk bróðurmissirinn ákaflega mikið á Benjamin sem var ekki með hýrri há eftir áfallið. Auðnaðist honum ekki að sjá til sólar á ný og hálfu ári síðar kaus hann sér þau örlög að fylgja bróður sínum í eilífðina. Þeir bræður voru báðir þjakaðir af einhverfurófsröskuninni Asperger-heilkenni sem var þeim erfiður ljár í þúfu.

Lars Petter Kjær hefur skrifað bók um syni sína, harmleikina …
Lars Petter Kjær hefur skrifað bók um syni sína, harmleikina og reynslu sína sem út kom hjá norska forlaginu Cappelen Damm og heitir Elias og Benjamin – Frásögn föður af óhugsandi atburðum. Ljósmynd/Úr einkasafni

„Við hugsuðum með okkur að það sem við töldum óhugsandi hefði nú gerst,“ segir Kjær um brotthvarf Benjamins, „það gæti hreinlega ekki gerst. En svo gerðist það,“ heldur hann áfram. Fjölskyldan var í hreinu áfalli eftir andlát beggja sonanna. „Þetta var bara botnlaus tómleiki,“ lýsir hann ástandinu eftir síðara sjálfsvígið.

Kjær gerði allt sem í hans valdi stóð til að koma lífinu í eðlilegt horf á ný. Hann óskaði einskis annars en að mæta í vinnuna og vera virkur þótt skrefin í þá átt væru níðþung en sjálfur er hann klínískur sálfræðingur. Samtímis þessu þjáðist hann af samviskubiti. Hefði hann ekki getað gert eitthvað, sagt eitthvað, breytt einhverju?

Eina leiðin að mæta sorginni

„Hrikalega erfiðar spurningar og hugsanir sóttu að mér og það hefur tekið mig langan tíma að losna undan oki þeirra,“ segir Kjær. Hann óskaði sér þess að hann gæti pakkað sorginni niður, látið sem hún væri ekki til. En þannig ganga kaupin ekki fyrir sig á þessari eyri.

„Ég áttaði mig að lokum á því að leiðin áfram í gegnum þetta væri einmitt að mæta sorginni og takast á við hana af einlægni,“ segir fjölskyldufaðirinn, „vera opinn um hana og tala um hana – gefa einfaldlega höggstað á sér.“ Núna áttar hann sig á því að sorgin mun aldrei víkja frá honum, hins vegar sé mikilvægt að geta sætt sig við þennan nýja félagsskap og að hún komi til með að fylgja honum.

Er hér er komið sögu hefur Kjær meðtekið að hann fái engu breytt. Hversdagslífi sínu lýsir hann sem hefðbundnu fjölskyldulífi með nær áþreifanlegri skuggahlið. „Ég get lifað með því að eiga mér venjulegt fjölskyldulíf þar sem hlátur ríkir og gleði, en ég finn líka að þar rennur annar straumur, dimmur og dapurlegur. Þessir raunveruleikar eru hliðstæðir, þeir eru þarna báðir,“ segir Kjær.

Hann tekur það sárt að heyra af sjálfsvígstíðni í Noregi sem er á leið upp á við. „Mér þykir það mjög þungbært. Sjálfsvíg hafa skelfilegar afleiðingar fyrir aðstandendur og mér þykir ákaflega þungbært að heyra þetta,“ segir Lars Petter Kjær sem þekkir á eigin skinni missi sem ekki er allra að upplifa.

Karlmenn leiti sér síður hjálpar

NRK ræðir einnig við Lars Mehlum, prófessor í geðlæknisfræði og sjálfsvígsfræðum (n. suicidologi). Segir Mehlum viðbrögð Kjærs svo rétt sem verða megi, að sætta sig við hlutina upp að vissu marki og halda áfram með lífið.

Mehlum er einnig forstöðumaður Sjálfsvígsrannsókna- og forvarnamiðstöðvar Noregs (n. Nasjonalt senter for selvmordsforskning og forebygging) og bendir á að ástvinir, sem eftir sitja í kjölfar sjálfsvígs, séu sjálfir í áhættuhópi hvað þetta örþrifaráð snertir, eins og saga tvíburanna sannar ef til vill.

„Ég áttaði mig að lokum á því að leiðin áfram …
„Ég áttaði mig að lokum á því að leiðin áfram í gegnum þetta væri einmitt að mæta sorginni og takast á við hana af einlægni,“ segir Kjær, „vera opinn um hana og tala um hana – gefa einfaldlega höggstað á sér.“ Ljósmynd/Úr einkasafni

„Þess vegna er svo mikilvægt að styðja við þá hjálp sem syrgjandi aðstandendum býðst,“ segir prófessorinn, „ætlum við okkur að ná árangri, svo ekki sé talað um þessa núllsýn, sem ríkisstjórnin hefur slegið fastri, verðum við að gera meira.“ Kveður hann til dæmis mikilvægt að hafa í huga að karlmenn leiti sér síður hjálpar en konur þegar sjálfsvígshugsanir kalla að þeim.

„Það er ýmist vegna þess að þeir vita ekki af þeirri hjálp sem stendur til boða eða að þeir vilja ekki þiggja hjálp. Ég held að margir karlmenn kannist við þetta síðarnefnda,“ segir Mehlum og kallar eftir athygli hins opinbera á vettvangi skólakerfisins þar sem vinna megi forvarnastarf.

Spurningin sem þarf að spyrja

„Hvernig væri ástandið til dæmis ef hvert sveitarfélag fyrir sig tæki ákvörðun um hvaða bólusetningar börn skuli fá?“ spyr prófessorinn og vísar þar með til þess að ríkið þurfi að stíga fram og sjá til þess að skólakerfið á landsvísu leggi sitt lóð á vogarskál forvarna.

Að lokum segir Lars Mehlum fátt koma í veg fyrir að ræða erfið mál opinskátt. Slík umræða sé lykilatriði í að koma lífsnauðsynlegum upplýsingum til samfélagsins. „Við þurfum öll að taka þátt. Sú klisja er lífseig að þú getir ýtt einhverjum út í sjálfsvígshugsanir með því að spyrja viðkomandi hvort hann eða hún hafi hugleitt það. En þetta er einmitt spurningin sem við eigum að spyrja,“ segir prófessorinn.

Ef þú ert að upplifa sjálfsvígshugsanir er hjálparsími Rauða krossins, 1717, opinn allan sólarhringinn. Einnig er netspjall Rauða krossins, 1717.is, opið allan sólarhringinn. Píeta-samtökin veita ókeypis ráðgjöf í síma 552-2218. Á netspjalli á Heilsuvera.is er einnig hægt að ráðfæra sig við hjúkrunarfræðing um næstu skref. Ef þú ert í bráðri hættu hringdu í 112.

NRK

NRKII (gagnrýna stefnu stjórnvalda)

NRKIII (hve mikið gagn gera þunglyndislyf í raun?)

Ríkisstjórn Noregs – núllstefna í sjálfsvígum

Dánarorsakir í Noregi

mbl.is