Spennan magnast á landamærum Serbíu og Kósovó

Lögregla í Kósovó.
Lögregla í Kósovó. AFP

Yfirvöld í Kósovó hafa lokað tveimur landamærastöðvum sínum við Serbíu vegna aukinnar spennu. 

Ríkið á landamæri að Serbíu í norðri en í dag lokuðu almennir Serbar vegum og skutu að lögreglu vegna deilna um bílnúmer. 

Reuters greinir frá því að lögregla í Kósovó hafi fyrirskipað að bílnúmerinu yrði breytt í kósovóskt. 

Atlantshafsbandalagið sagði í yfirlýsingu að náið væri fylgst með stöðunni og að bandalagið myndi stíga inn í ef þess væri þörf.

Viðurkenna ekki sjálfstæði Kósovó

Fjórtán ár eru síðan Kósovó fékk sjálfstæði frá Serbíu og búa um 50 þúsund Serbar í Norður-Kósovó sem enn nota serbnesk bílnúmer og önnur serbnesk gögn. Neita þeir að viðurkenna sjálfstæði ríkisins. 

Um 100 ríki viðurkenna sjálfstæði Kósovó, þar á meðal eru þó hvorki Serbía né Rússland.

Ríkisstjórn Kósovó hefur úrskurðað að bílnúmer íbúa þurfi að vera kósovósk frá og með 1. ágúst. Þá munu Serbar einnig þurfa að hafa sérstök gögn til þess að fara yfir landamærin. Yfirvöld í Serbíu hafa innleitt svipaða reglu. 

Serbar myndu sigra

Lögreglan í Kósovó sagði í færslu á Facebook í dag að engra kosta völ hefði verið á að loka landamærastöðvunum, Jarinje og Bernjak, eftir átök. Enginn hafi þó særst.

Þá heyrðust loftvarnarsírenur í smábæ, þar sem mestmegnis Serbar búa, á landamærunum í rúmar þrjár klukkustundir eftir að átökin hófust. 

Aleksandar Vucic, forseti Serbíu, sagði að staðan hefði aldrei verið „flóknari“ fyrir Serbíu og Serba. Þá sagði hann að Serbar myndu sigra ef þeir myndu hefja árás. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert