Úkraína fær fleiri HIMARS-eldflaugakerfi

Hann telur að það þurfi alls hundrað sprengjuvörpur til þess …
Hann telur að það þurfi alls hundrað sprengjuvörpur til þess að geta snúið vörn í sókn gegn Rússum. Þá kallar hann á ný eftir langdrægnari skotvopnum. AFP

Úkraína hefur fengið í hendurnar fleiri nákvæm eldflaugakerfi, frá Bandaríkjunum og Þýskalandi. Stjörnvöld í Kænugarði segjast vera að breyta um aðferðafræði á stríðsvellinum. 

Oleksí Resnikov, varnarmálaráðherra Úkraínu, tilkynnti á Twitter að fjórir eldflaugavagnar af gerðinni HIMARS hefðu borist frá Bandaríkjunum. Þar að auki hefði Þýskaland sent þeim eldflaugakerfi af gerðinni MARS-II. 

Resnikov þakkaði sérstaklega varnarmálaráðherra Þýskalands, Christine Lambrecht.

Þá kvaðst hann einnig þakklátur Joe Biden, forseta Bandaríkjanna, og Lloyd Austin, varnamálaráðherra Bandaríkjanna, fyrir að styrkja her Úkraínumanna með þessum hætti.

Hljóðið í HIMARS hafi slegið í gegn 

„Við höfum reynst snjallir í meðhöndlun á þessu vopni. Hljóðið í HIMARS hefur slegið í gegn þetta sumar meðal þeirra sem standa í fremstu víglínu.“

Bandaríkin hafa til þessa sent Úkraínumönnum alls 20 HIMARS-eldflaugakerfi, sem hafa eflt her þeirra verulega. 

Resnikov óskaði eftir því í síðasta mánuði, að Bandaríkin sendu enn fleiri vopn af þessari gerð, enda hefði Úkraínumönnum tekist að eyðileggja um 30 rússneskar stjórnstöðvar og vopnabyrgi. 

Vill 100 HIMARS-kerfi og langdrægari eldflaugar

Hann telur að það þurfi alls hundrað eldflaugakerfi til þess að geta snúið vörn í sókn gegn Rússum. Þá kallar hann á ný eftir langdrægnari eldflaugum sem skotfæri fyrir kerfin. 

Stjórnvöld í Bandaríkjunum hafa hrósað Úkraínumönnum fyrir það hve vel þeir hafa nýtt HIMARS-kerfin. Aftur á móti hafa Bandaríkjamenn ekki viljað útvega Úkraínu langdrægari skotfæri, þar sem þeir hafa óttast að Úkraínumenn myndu nota þau til þess að hæfa skotmörk innan landamæra Rússlands. Það gæti orðið kveikjan að beinum átökum milli vestrænna ríkja og Rússlands.

mbl.is