Pelosi mætt til Taívan í umdeildri heimsókn

Pelosi kom með flugvél bandaríska hersins.
Pelosi kom með flugvél bandaríska hersins. AFP/Sam Yeh

Nancy Pe­losi, for­seti full­trúa­deild­ar Banda­ríkjaþings, er nú lent í Taívan þar sem hún er stödd í umdeildri heimsókn. Íbúar sem eru hliðhollir kínverskum yfirvöldum hafa safnast saman fyrir utan hótelið sem hún dvelur á til að mótmæla komu hennar. 

Yfirvöld í Kína eru afar ósátt við ferðina, sem þau telja vera inngrip í innanríkismál landsins, og hafa varað Bandaríkin við afleiðingum vegna heimsóknarinnar. Skömmu áður en vél Pelosis lenti eru kínverskar orrustuþotur sagðar hafa flogið í átt að eyjunni.

Segja Pelosi hættulega

Taívanar telja ríkið sitt vera sjálfstætt en yfirvöld í Kína segja eyjuna vera hluta af yfirráðasvæði sínu og hafa Kínverjar gert sig líklega til að gera innrás til að ná þar völdum. Í yfirlýsingu sem kínverska utanríkisráðuneytið gaf út í kjölfar tilkynningu um komu Pelosis, segir að hún sé afar hættuleg.

Repúblikanaflokkurinn og Demókrataflokkurinn í Bandaríkjunum eru á sama máli um að Taívan eigi að halda sjálfstæði sínu en óeining hefur þó ríkt um heimsókn Pelosis til Taívans. Þá hafa Bandaríkin ekki opinberlega viðurkennt sjálfstæði eyjunnar.

Pelosi er æðsti bandaríski embættismaðurinn sem hefur heimsótt Taívan í 25 ár. Hún hefur áður sagt að mikilvægt sé að Bandaríkin sýni sjálfstæði Taívana stuðning en hún hefur aftur á móti neitað því að heimsóknin stangist á við opinbera stefnu Bandaríkjanna um að styðja eitt sameinað Kína.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert