Samvaxnir tvíburar aðskildir með hjálp sýndarveruleika

Drengirnir eru nú á batavegi en við tekur sex mánaða …
Drengirnir eru nú á batavegi en við tekur sex mánaða endur­hæfing. Ljósmynd/PA Media

Þriggja ára gamlir brasilískir tvíburar sem höfðu samvaxin höfuð voru aðskildir með aðstoð sýndarveruleika. 

BBC greinir frá því að Bernardo og Arthur Lima hafi farið í aðgerð sem tók 27 klukkustundir og 100 starfsmenn komu að í Rio de Janeiro í Brasilíu með aðstoð sérfræðinga á sjúkrahúsi í Lundúnum í Bretlandi. 

Margir mánuðir fóru í að prófa að­ferðir með sýndar­veru­leika áður en drengirnir gengust raun­veru­lega undir að­gerð.

Skurðlæknirinn Noor ul Owase Jeelani lýsti aðgerðinni sem „ótrúlegu afreki“ en um er að ræða flóknustu læknisaðgerð sem hefur verið framkvæmd, að sögn Jeelani.

Tvíburarnir höfðu samvaxin höfuð en skurðlæknirinn Noor ul Owase Jeelani …
Tvíburarnir höfðu samvaxin höfuð en skurðlæknirinn Noor ul Owase Jeelani (vinstri) tók þátt í að aðskilja þá. Ljósmynd/PA media

Tók korters pásur

Jeelani sagði að í fyrsta skipti hafi skurðlæknar í mismunandi löndum verið með sýndarveruleikagleraugu og því framkvæmt aðgerðina í sama „sýndarherbergi“. 

Tvíburarnir hafa alls farið í sjö aðgerðir en alltaf hefur mistekist að aðskilja þá. Jeelani sagði að því hafi verið erfitt að vinna með örin sem höfðu myndast á húð drengjanna. 

Hann sagðist hafa verið gjörsamlega uppgefinn eftir síðustu aðgerðina en hann tók korters pásur til þess að fá sér að borða og drekka. 

Drengirnir eru nú á batavegi en við tekur sex mánaða endur­hæfing.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert