Brittney Griner dæmd í níu ára fangelsi

Griner gekk inn í réttarsalinn í fylgd lögreglumanna og lögregluhunds.
Griner gekk inn í réttarsalinn í fylgd lögreglumanna og lögregluhunds. AFP/Kiríll Kúdrjavtsev

Rússneskur dómstóll hefur dæmt bandarísku körfuknattleikskonuna Brittney Griner í níu ára fangelsi. Var hún í dag sakfelld fyrir smygl og vörslu fíkniefna. Þá þarf hún einnig að greiða eina milljón rúbla í sekt, sem jafngildir rúmlega tveimur milljónum íslenskra króna.

Griner var handtekin á flugvellinum í Moskvu í febrúar eftir að rafrettuhylki með kannabisolíu fannst í farangri hennar.

„Ég vil að dómstóllinn skilji að þetta voru heiðarleg mistök sem ég gerði þegar ég var að flýta mér, undir álagi, að reyna að jafna mig eftir Covid og reyndi bara að komast aftur til liðsins míns,“ sagði Griner í dag.

Höfð í búri fyrir sakborninga

Hún gekk inn í réttarsalinn í handjárnum, í fylgd nokkurra lögreglumanna og lögregluhunds, en var höfð í búri fyrir sakborninga áður en réttarhöldin hófust.

Lögmaður hennar, Maria Blagovolina, sagði fyrir rétti að magn efnisins sem Griner kom með til landsins hefði verið rétt yfir leyfilegu hámarki. Griner var aftur á móti fundin sek um smygl og vörslu „verulegs magns af fíkniefnum“.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert