Fjögur kornflutningaskip fóru frá Úkraínu

Skipið Glory sigldi frá Tsjornómorsk-höfn í dag.
Skipið Glory sigldi frá Tsjornómorsk-höfn í dag. AFP/Oleksandr Gimanov

Fjögur skip hlaðin korni og sólblómaolíu hafa yfirgefið hafnir í Úkraínu og halda til Tyrklands þar sem þau verða skoðuð. BBC greinir frá.

Skipin sigldu frá Ódessa-höfn og Tsjornómorsk-höfn í dag og að lokinni skoðun munu tvö þeirra leggjast að bryggju í Tyrklandi en hin fara til Ítalíu og Kína. Skoðunin er hluti af samkomulagi sem náðst hefur milli Úkraínu og Rússlands við Sameinuðu þjóðirnar og Tyrkland.

Samningurinn var undirritaður 22. júlí og á að gilda í 120 daga, en mögulegt er að endurnýja hann ef aðilar eru sammála um það. Samningnum er ætlað að draga úr alþjóðlegri matvælakreppu.

Fyrsta skipinu seinkaði

Fyrsta skipið frá því að samningurinn var undirritaður fór frá Ódessa-höfn á mánudag og var áætlað að það kæmi til Líbanon í dag. Úkraínskir embættismenn hafa aftur á móti greint frá því að skipið muni ekki leggjast að bryggju í dag eins og til stóð. Skipinu hefði „seinkað“ en ekki liggja fyrir upplýsingar um orsökina eða nýjan komudag.

Tuttugu milljónir tonna af korni sitja fast í landinu vegna hindrunar sem Rússar settu á úkraínskar hafnir. Ef allt gengur upp samkvæmt samningnum gera stjórnvöld í Úkraínu ráð fyrir að flytja út allt að þrjár milljónir tonna af korni á mánuði.

Volodimír Selenskí, forseti Úkraínu, fagnaði því að útflutningur væri hafinn að nýju en sagði áhyggjur af öryggi enn ríkja.

mbl.is