„Hver veit hvað leynist í þessum gögnum?“

„Þrátt fyrir að þú látir af embættinu þýðir það ekki …
„Þrátt fyrir að þú látir af embættinu þýðir það ekki að þú eigir tilkall til þeirra gagna sem þú nýttir þér í starfi,“ sagði Lippman. AFP

Donald Trump, fyrrverandi Bandaríkjaforseti, hafði mörg tækifæri til þess að afhenda þau gögn sem alríkislögreglan leitaði að á heimili hans í gærkvöldi, að mati Daniels Lippmans, fréttaritara bandaríska fjölmiðilsins Politico, í Washington.

Það sé skylda fráfarandi forseta að afhenda þau gögn sem þeir nýttu á meðan þeir sátu í embættinu.

Lippman var fenginn í útvarpsfréttir BBC í eftirmiðdaginn til þess að útskýra hvernig bandarískum lögum er háttað varðandi þau gögn sem Bandaríkjaforseti hefur undir höndum.

„Þrátt fyrir að þú látir af embættinu þýðir það ekki að þú eigir tilkall til þeirra gagna sem þú nýttir þér í starfi,“ sagði hann og hélt áfram:

„Þegar Obama lét af embætti árið 2017 tók hann ekki með sér heilu kassana af skjölum.“

Engar blaðaúrklippur sem leitað er að

Eric Trump, sonur fyrrverandi forsetans, sagði við Fox News að faðir sinn væri vanur að „geyma gamlar blaðaúrklippur“. Lippman gaf lítið fyrir þau ummæli og sagði að alríkislögreglan væri ekki að leita að neinum blaðagreinum, heldur trúnaðarskjölum bandarískra stjórnvalda.

„Hver veit hvað leynist í þessum gögnum?“

Donald Trump afhenti fyrir stuttu alríkislögreglunni 15 skjalakassa af gögnum, sem hann hafði tekið með sér úr Hvíta húsinu í óleyfi. Lippman segir að lögreglan hljóti að hafa uppgötvað að það leyndust fleiri skjöl á heimili Trumps.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert