„Sjúklingarnir mega kæra mig“

Svein Are Auestad, sjúklingur sem Jerlan Omarchanov örkumlaði í handaraðgerð …
Svein Are Auestad, sjúklingur sem Jerlan Omarchanov örkumlaði í handaraðgerð fyrir þremur árum, telur nauðsynlegt að réttarkerfið fjalli um mistök í heilbrigðiskerfinu en dómsmál gegn Omarchanov verður þingfest fyrir héraðsdómi nú í ágústlok. Ljósmynd/Úr einkasafni

„Það sem ég framkvæmi sem skurðlæknir á að þola dagsljósið, ég óttast ekki lögreglurannsóknir, sjúklingarnir mega kæra mig,“ segir norski meltingarfæraskurðlæknirinn Roland Ruiken í samtali við þarlent ríkisútvarp, NRK.

Ruiken hefur starfað við fagið í rúm 30 ár, hin síðustu sjö við Sjúkrahúsið í Østfold, og mótmælir með þessum orðum þeirri skoðun Læknafélags Noregs, Legeforeningin, að sjúklingar ættu ekki að kæra mistök lækna sinna til lögreglu.

Sprettur umfjöllunin af því að bæklunarskurðlæknir, og yfirlæknir, við Sørlandet-sjúkrahúsið í Flekkefjord við vesturströnd Noregs liggur nú undir grun lögreglu um stórfelld mistök við aðgerð en sjúkrahúsið hefur ítrekað sætt umfjöllun fjölmiðla vegna skurðlæknisins Jerlans Omarchanovs frá Kasakstan sem kostaði sjúklinga lífið auk þess að örkumla íslenska konu, Margréti Annie Guðbergsdóttur, sem mbl.is ræddi við í febrúar 2020.

„Ég sé ekki að samfélagið græði neitt á amerískum vinnubrögðum þar sem tíska þykir að sækja lækna til saka,“ segir Anne-Karin Rime, formaður Læknafélagsins, og er ósammála Ruiken. „Við búum yfir viðbragðskerfi sem heilbrigðiskerfið stjórnar.“

Ruiken mótmælir: „Þetta eru bara norsk lög og réttindi borgaranna. Ég sé ekkert að því [að sjúklingar leiti réttar síns],“ segir hann og játar að sjúklingar hans hafi lagt fram kvartanir vegna aðgerða sem hann hefur borið ábyrgð á. Þar hafi hann enga áfellisdóma hlotið.

„Ég ber engan kvíðboga fyrir því að lögreglan kveði upp dóm yfir mér. Þær ákvarðanir sem ég tek eru úthugsaðar, ég ráðfæri mig ávallt við samstarfsfólk sé ég í vafa um meðhöndlun sjúklinga,“ segir Ruiken, „sé verkefnið utan míns sérfræðisviðs sendi ég það til annarra. Á heilbrigðisstarfsfólki hvílir sú skylda að geta lagt mat á eigin færni.“

Að sögn NRK hafa læknar haft samband við ríkisútvarpið og látið óánægju sína með ummæli stéttarfélagsins í ljós. Þeir kusu þó ekki að tjá sig með nafni.

Roland Ruiken meltingarfæraskurðlæknir óttast ekki kærur sjúklinga. Þvert á móti …
Roland Ruiken meltingarfæraskurðlæknir óttast ekki kærur sjúklinga. Þvert á móti tekur hann þeim opnum örmum, réttur hvers sjúklings sé að bera hans vinnubrögð undir dómbæra menn. Ljósmynd/Úr einkasafni

„Einhverjir læknar munu alltaf vera ósammála því sem við sendum frá okkur,“ segir Rime félagsformaður, „þannig er það bara,“ heldur hún áfram og segir ákærur með refsiviðurlögum ekki réttu leiðina. „„Naming, shaming and blaming“ veldur bara ótta við að gera mistök. Frekar ættum við að einbeita okkur að því að greina frá óheppilegum atvikum og skapa þannig umræðu sem hægt er að nýta á uppbyggilegan hátt,“ er skoðun formannsins.

Svein Are Auestad, sjúklingur sem Jerlan Omarchanov örkumlaði í handaraðgerð fyrir þremur árum, telur nauðsynlegt að réttarkerfið fjalli um mistök í heilbrigðiskerfinu en dómsmál gegn Omarchanov verður þingfest fyrir héraðsdómi nú í ágústlok.

„Kerfið er orðið þannig að læknar geta bara gert eins og þeim þóknast vegna þess að þar til nú hafa þeir ekki þurft að sæta neinum afleiðingum,“ segir Auestad við NRK. Hann kærði þó ekki sitt mál af ótta við álagið sem það ylli. Ákærusvið lögreglunnar lagði hins vegar fram ákæru gegn Omarchanov og því fagnar Auestad. „Það er mjög jákvætt. Ég hef hugleitt þetta mál ítarlega og það er nauðsynlegt að ákæra eins og það hefur þróast,“ segir hann.

Anne-Karin Rime, formaður Læknafélags Noregs, kveður heilbrigðiskerfið einfært um að …
Anne-Karin Rime, formaður Læknafélags Noregs, kveður heilbrigðiskerfið einfært um að annast sín mistök og segist ekki sjá hvað samfélagið græði á amerískum viðbrögðum á borð við saksókn lækna. Ljósmynd/Læknafélag Noregs

Mál hans gegn skurðlækninum frá Kasakstan er þó það eina sem fer fyrir dóm þar sem önnur mál töldust fyrnd áður en ákærur voru gefnar út, þar á meðal mál áðurnefndrar Margrétar. Ekki var hægt að ákæra í því máli þar sem lögreglan í Agder-umdæminu gleymdi einfaldlega að senda viðhengi með tölvupósti

„Þetta mál hvílir nú á mínum herðum. Ég er sá eini sem eftir er af öllum sem hlutu tjón af. Mál hinna fara ekki fyrir dóm. Því ber ég ábyrgð á að upplýsa málið til hins ýtrasta,“ segir Auestad að lokum við NRK.

NRK

NRKII (gleymdist að senda viðhengi)

NRKIII (annar grunaður í Flekkefjord)

NRKIV (lögregla ákærir)

TV2

Extraavisen

mbl.is