Tilvik lömunarveiki rannsakað í New York

Um er að ræða fyrsta tilvik lömunarveiki í Bandaríkjunum í …
Um er að ræða fyrsta tilvik lömunarveiki í Bandaríkjunum í tæpan áratug. Ljósmynd/UNICEF

Bandaríska lýðheilsustofnunin (CDC) hefur sent af stað rannsóknarteymi til New York til að rannsaka tilvik lömunarveiki sem greint var í Rockland-sýslu í Bandaríkjunum í síðasta mánuði. ABC News segir frá.

Um er að ræða fyrsta tilvik lömunarveiki í Bandaríkjunum í tæpan áratug en síðasta tilfellið greindist árið 2013. Teymið mun einnig sjá um bólusetningar á svæðinu.

Ekki liggur fyrir hversu lengi CDC verður í sýslunni eða hvort niðurstöðurnar verði birtar almenningi.

Heilbrigðisyfirvöld New York-ríkis tilkynntu 21. júlí að sjúklingur í Rockland-sýslu hefði smitast af veikluðu afbrigði lömunarveiki sem borist hefði með bólusettum einstaklingi. Sá hafði fengið bólusetningarlyf sem tekið var inn munnlega, en slíkt tíðkast ekki lengur í Bandaríkjunum.

Sjúklingurinn er 20 ára gamall karlmaður sem hafði ferðast til Evrópu en greindist með lömunarveiki eftir að hann var fluttur á spítala vegna lömunareinkenna í fótum.

Veiran getur borist með skolpvatni

Sjaldgæf dæmi eru um að veiran berist með skolpvatni og smiti þannig þá sem eru óbólusettir. Í síðustu viku sagði heilbrigðisráðherra New York að yfir hundrað manns í New York gætu verið smitaðir eftir að veiran greindist í sýnum sem tekin voru úr skolpkerfum í fjölmörgum sýslum.

Gögn heilbrigðisstofnunar sýna að frá og með 5. ágúst hafi 11 sýni verið rakin til sjúklingsins í Rockland-sýslu, þar á meðal sex sýni sem tekin voru í júní og júlí frá Rockland-sýslu og fimm önnur tekin í júlí frá Orange-sýslu, sem er stutt frá.

„Þótt engin fleiri tilfelli hafi greinst hingað til sýna þesar niðurstöður fram á að fleiri en einn einstaklingur sé með veiruna í líkamanum í þessum samfélögum,“ stóð í yfirlýsingu frá CDC.

„Þessir einstaklingar gætu verið einkennalausir eða með væg einkenni, til dæmis hálsbólgu og hita, en þeir geta samt sem áður dreift lömunarveiki til þeirra sem eru óbólusettir.“

Kallar eftir bólusetningum

Dr. Mary Basset, heilbrigðisráðherra New York, hefur kallað eftir því að þeir sem eru óbólusettir fyrir lömunarveiki láti bólusetja sig sem fyrst.

„Samkvæmt fyrri dæmum um lömunarveikisfaraldur er mikilvægt að New York-búar geri sér grein fyrir því að hundruð geti þegar verið smitaðir þegar eitt tilfelli lömunarveiki kemur upp,“ sagði Bassett í yfirlýsingu á fimmtudag. „Heilbrigðisstofnunin lítur á þetta eina dæmi sem vísbendingu um enn stærra vandamál í samræmi við niðurstöðurnar úr skolpvatnssýnunum.“

„Við verðum að tryggja það að fullorðið fólk, þar á meðal barnshafandi einstaklingar og ungbörn frá tveggja mánaða aldri, sé ónæmt fyrir veirunni.“

mbl.is