Illa særður eftir hnífstungur

Maður liggur alvarlega sár á Ullevål eftir hnífstunguárás nú síðdegis.
Maður liggur alvarlega sár á Ullevål eftir hnífstunguárás nú síðdegis. mbl.is/Atli Steinn

„Einn liggur alvarlega sár á Ullevål-sjúkrahúsinu eftir að veist var að honum með höggum og hnífstungum í Grønland nú síðdegis,“ segir Rune Hekkelstrand, varðstjóri hjá lögreglunni í Ósló, í samtali við mbl.is nú undir kvöld um fólskulega líkamsárás í Grønland-hverfi borgarinnar þar sem nokkrir árásarmenn veittust að tveimur öðrum á götu.

„Lögreglan hefur ekki handtekið neinn enn þá vegna málsins en við vinnum nú að því að tryggja okkur spor á vettvangi auk þess sem við ræðum við vitni. Við vonumst til að afla okkur upplýsinga um árásarmennina með kvöldinu,“ segir varðstjórinn enn fremur.

Ekki vitað um ástæður

Árásum með eggvopnum, allt frá hnífum upp í sveðjur, hefur fjölgað umtalsvert í Ósló síðustu ár, er varðstjórinn tilbúinn að tjá sig um það? „Nei, það er ekki alveg mín deild að ræða það við fjölmiðla, ég er ekki með þessar tölur fyrir framan mig, er á vettvangi núna, og ég get eiginlega ekki tjáð mig um það,“ segir Hekkelstrand.

Er honum þá kunnugt um hver kveikjan var að því að í brýnu sló í Ósló í dag? „Nei, við treystum okkur ekki til að segja neitt um það enn þá, við erum með kenningu um að þetta hafi eitthvað haft með tengsl þessa fólks að gera en ég get ekki sagt neitt um það,“ heldur hann áfram og bætir því við aðspurður að árásarþolar hafi báðir verið norskir ríkisborgarar.

Lögregla hefur ekki fundið vopnið sem beitt var við árásina enn sem komið er.

mbl.is