Mjaldurinn aflífaður eftir björgunaraðgerð

Mjaldurinn var dreginn í net í björgunartilraun, en hún gekk …
Mjaldurinn var dreginn í net í björgunartilraun, en hún gekk ekki upp. AFP

Mjaldurinn, sem reynt hefur verið að bjarga síðastliðna viku eftir að hann synti upp ána Signu í Frakklandi, var aflífaður eftir að reynt hafði verið að bjarga honum úr ánni í morgun.

Mjaldurinn var vannærður og leit ekki við þeim mat sem kastað var til hans, en hann þjáðist líklegast af einhverjum sjúkdómi. Árvatnið er heitt og hvalurinn hafði ekki viljað éta frosna síld eða lifandi silung.

Sást fyrst í síðustu viku

Mjaldurinn var aflífaður í dag þegar björgunaðgerð á honum gekk ekki upp, en sjávarlíffræðingar drógu dýrið í net og ætluðu að færa hvalinn yfir í vörubíl sem myndi keyra með hann í sjóinn. 

Mjaldurinn sást fyrst í ánni á þriðjudag í síðustu viku en frá því á föstudag hefur hann haldið sig í ánni í um 70 km fjarlægð norður af París. Það er afar sjaldgæft að mjaldrar syndi svona langt suður. 

„Þrátt fyrir fordæmalausa björgunaraðgerð verðum við að tilkynna með sorg að hvalurinn hafi drepist,“ sögðu yfirvöld í Normandí-héraði.

mbl.is