Sorgarsaga frá Þrándheimi

Alf Ingar Selven var alvarlega fatlaður eftir að hafa fengið …
Alf Ingar Selven var alvarlega fatlaður eftir að hafa fengið mislinga og heilahimnubólgu í æsku, hann var algjörlega háður aðstoð við flestar athafnir daglegs lífs og lést á umönnunarheimili í mars þar sem tugir afleysingafólks sinntu honum á þremur vikum vegna manneklu. Ljósmynd/Úr einkasafni

Hún er ekki falleg, frásögnin af örlögum Alfs Ingars Selvens, 67 ára gamals manns sem líkast til lést af völdum ofþornunar á umönnunarheimilinu Klæbu helse- og velferdssenter í Þrándheimi í Noregi.

Heilsa- og velferð, orðin sem prýða nafn heimilisins, hafa öfugsnúna merkingu í huga aðstandenda Selvens sem eru með böggum hildar yfir örlögum hans, einkum á eldri bróðir hans, Kurt Selven, erfitt með að sætta sig við það sem gerðist á Klæbu-heimilinu.

Alf Ingar fæddist heilbrigður haustið 1954 en fékk mislinga tæplega tveggja ára gamall auk heilahimnubólgu. Læknum tókst að bjarga lífi hans svo litlu munaði en drengurinn ungi endaði baráttu sína við þessa sjúkdóma sem öryrki, fullkomlega ósjálfbjarga og algjörlega háður aðstoð umönnunarstarfsfólks. Hún virðist hafa brugðist.

Kröftum þrotinn

Selven fluttist frá þjónustuíbúð í Sagmyra yfir á Klæbu þar sem aðstandendur hans töldu hann myndu eiga betra líf á ævikvöldinu. Manneklan á Klæbu var slík að þær þrjár vikur, sem hann dvaldi á heimilinu þar til hann lést þar, sinntu 27 mismunandi starfsmenn honum. Veikindafjarvistir, meðal annars vegna heimsfaraldursins, og fjöldi afleysingafólks spilaði þar inn í. Ekkert þessa fólks náði að kynnast Selven almennilega og þörfum hans. Það gerði hins vegar starfsmaður á Sagmyra sem áður hafði sinnt honum í mörg ár og heimsótti hann á Klæbu í mars.

Systkinin fjögur í aldursröð frá vinstri: John Magne (lést 2005), …
Systkinin fjögur í aldursröð frá vinstri: John Magne (lést 2005), Alf Ingar, Kurt og Laila. Ljósmynd/Úr einkasafni

„Hann virtist kröftum þrotinn,“ segir manneskja þessi í samtali við norska ríkisútvarpið NRK en kemur ekki fram undir nafni. Ég náði engu sambandi við hann.“ Hún tók eftir því að Selven var skraufþurr í munninum og grunaði að hann hefði ekki fengið að drekka dögum saman. Hins vegar gat hún lítið aðhafst, hann var ekki á hennar ábyrgð lengur, kominn á annað heimili. Hún faðmaði hann því að sér og lofaði að koma aftur í heimsókn. Af þeirri heimsókn varð aldrei. Þremur dögum síðar var Selven allur.

Fyrir luktum dyrum

Í dag fundaði sveitarfélagið, Þrándheimur, um hvað gerst hefði á Klæbu-heimilinu. Sá fundur var haldinn fyrir luktum dyrum. „Hér skortir ekki frásagnir, fornar og nýjar, af sorglegum atburðum,“ segir Elin Marie Andreassen, bæjarfulltrúi Framfaraflokksins, í samtali við NRK.

Bendir hún á að starfsfólk við umönnun hafi verið undir gríðarlegri pressu misserum saman. Trúnaðarmenn hafi bent á að ráða þyrfti fleira fólk, ár eftir ár. „Og ár eftir ár koma nýjar sögur,“ segir hún og beinir því næst spjótum sínum að Ritu Ottervik, borgarstjóra í Þrándheimi, sem situr fyrir Verkamannaflokkinn er haft hefur töglin og hagldirnar í borginni síðastliðin 19 ár.

Selven var lífsglaður og hress, hreinn sólargeisli að sögn systkina …
Selven var lífsglaður og hress, hreinn sólargeisli að sögn systkina sinna, þrátt fyrir alvarlega fötlun. Ljósmynd/Úr einkasafni

„Borgarstjórinn sagði við NRK að kerfið væri umfangsmikið og alls staðar væri hægt að gera mistök. En hve mörg mistök og hve mörg óheppileg mál geta borgarstjórinn og Verkamannaflokkurinn borið áður en hægt er að viðurkenna að í þessu kerfi er of lítið um hvort tveggja, peninga og starfsfólk?“ spyr Andreassen. „Hefði þetta gerst hjá einkaaðilum hefði borgarstjórinn ekki sparað gagnrýnina,“ bætir hún við.

Kærðu til fylkismanns

Það voru systkini Selvens, Kurt Selven og Laila Engvik, sem kærðu vinnubrögð heimilisins til fylkismannsins í Þrændalögum í maí, tveimur mánuðum eftir að bróðir þeirra lést. Fylkismaðurinn hóf rannsókn í júní sem er langt í frá lokið.

Wenche Dehli, fulltrúi heilbrigðis- og velferðarmála í Þrándheimi, mótmælir því harðlega að Selven hafi látist úr þorsta, hungri eða hvoru tveggja. Þó játar hún að mistök hafi verið gerð. „Hér eru einhverjar verklagsreglur sem ekki hefur verið fylgt [...] Það er mjög ólíklegt að andlát af völdum næringarskorts eigi sér stað eftir aðeins þrjár vikur,“ segir Dehli.

Selven brast í söng er minnst vonum varði. Hér er …
Selven brast í söng er minnst vonum varði. Hér er hann með móður sinni, Oddnýju (n. Oddny). Ljósmynd/Úr einkasafni

Ottervik borgarstjóri kveður Verkamannaflokkinn leggja mikla áherslu á mönnun umönnunarheimila. „Við munum fylgja þessum einstöku málum eftir og þeim verður sinnt. Eins munum við koma upp deildum þar sem mannskapur, með þá þekkingu sem krafist er, starfar. [...] Og svo ég svari Andreassen, þótt heimili séu einkarekin starfa þar ekki fleiri hjúkrunarfræðingar. Það er einn höfuðverkurinn. Við þurfum að halda í okkar starfsfólk. Ég er fullkomlega sammála því að við þurfum meira fjármagn. En við þurfum líka að velta því fyrir okkur hvernig við nýtum það sem við höfum,“ segir borgarstjóri.

Hvað sem því líður telja systkini og aðrir aðstandendur Selvens sig fá svör hafa fengið, frekar hafi spurningunum fjölgað.

Með Lailu systur sem nú hefur kært andlát bróður síns …
Með Lailu systur sem nú hefur kært andlát bróður síns til fylkismannsins í Þrændalögum ásamt Kurt bróður þeirra. Ljósmynd/Úr einkasafni

„Það er ekkert eðlilegt við það að fullorðinn maður, lífsglaður og hress, verði að beinahrúgu á þremur vikum,“ segir bróðirinn Kurt Selven, en þau Laila systir hans geta engu að síður lítið annað gert en að bíða þess sem verða vill með rannsókn fylkismannsins í Þrændalögum.

NRK

NRKII (úttektin „Talið niður að dauðanum“)

NRKIII (fylkismaðurinn hefur rannsókn)

NRKIV (hættulegur skortur á hjúkrunarfræðingum)

NRKV (borgarstjóri tjáir sig)

mbl.is

Bloggað um fréttina