Þjóðin harmi slegin eftir sjálfsvíg læknis

Hundruð manna kveiktu á kertum til minningar um Kellermayr.
Hundruð manna kveiktu á kertum til minningar um Kellermayr. AFP/Alex Halada

Austurríkismenn eru harmi slegnir vegna sjálfsvígs læknis sem hafði fengið stöðugar líflátshótanir frá mótmælendum gegn bólusetningum við Covid-19.

Læknirinn, Lisa-Maria Kellermayr, fannst látin á stofu sinni 29. júlí. Hún hafði lengi verið skotmark líflátshótana vegna gagnrýni sinnar á útbreidd mótmæli gegn sóttvarnaaðgerðum. Krufning staðfesti síðar að hún hefði svipt sig lífi.

Klukkur dómkirkjunnar í Vínarborg hringdu þann 1. ágúst og hundruð kveiktu á kertum til minningar um Kellermayr, sem var 36 ára gömul. Hún starfaði á svæði í Efra-Austurríki, þar sem bólusetningartíðni er sérstaklega lág, og hafði oft kvartað undan hótunum mótmælenda.

Sagðist ætla að ráðast á hana og starfsfólkið

„Í meira en sjö mánuði höfum við fengið líflátshótanir frá þeim sem eru á móti sóttvarnaaðgerðum og bólusetningum,“ skrifaði hún á sínum tíma og deildi um leið skilaboðum frá netnotanda sem sagðist myndu gefa sig fram sem sjúklingur til að ráðast á hana og starfsfólk hennar.

Kellermayr lýsti því einnig hvernig hún hefði eytt meira en 100.000 evrum í ráðstafanir til að tryggja öryggi sjúklinga sinna, sem jafngildir rúmlega 14 milljónum íslenskra króna, og var á barmi gjaldþrots.

Embætti land­lækn­is bend­ir á að mik­il­vægt sé að þeir sem glíma við sjálfs­vígs­hugs­an­ir segi ein­hverj­um frá líðan sinni, hvort sem er aðstand­anda eða hafi sam­band við Hjálp­arsíma Rauða kross­ins 1717, eða á net­spjalli 1717.is, við hjúkr­un­ar­fræðing í net­spjalli á heilsu­vera.is eða við ráðgjafa í síma Píeta-sam­tak­anna s. 552-2218. Píeta-sam­tök­in bjóða einnig upp á ráðgjöf og stuðning fyr­ir aðstand­end­ur þeirra sem glíma við sjálfs­vígs­hugs­an­ir.  

Fyr­ir þau sem misst hafa ást­vin í sjálfs­vígi bend­ir land­læknisembættið á stuðning í sorg hjá Sorg­armiðstöðinni í síma 551-4141 og hjá Píeta-sam­tök­un­um í síma 552-2218.

mbl.is