Lýsti yfir sigri í stríði gegn Covid-19

Kim Jong Un, leiðtogi Norður-Kóreu, á fundinum í gær.
Kim Jong Un, leiðtogi Norður-Kóreu, á fundinum í gær. STR

Kim Jong Un, leiðtogi Norður-Kóreu, lýsti yfir sigri „í stríðinu gegn skæðum heimsfaraldri“ þegar hann ávarpaði fund heilbrigðisstarfsmanna og vísindamanna í gær. Bætti hann við að sigurinn væri sögulegur atburður. Ekki hefur verið greint frá nýjum tilfellum Covid-19 í landinu síðan 29. júlí.

Þar að auki tilkynnti systir hans, Kim Yo Jong, að leiðtoginn hefði þjáðst af „háum hita“ en gat ekki hvílst „í eitt augnablik, þar sem hann var að hugsa um fólkið sem hann ber ábyrgð á“.

Er þetta í fyrsta sinn sem gefið hefur verið til kynna að leiðtoginn hafi verið smitaður af kórónuveirunni.

Vara Suður-Kóreu við hefndaraðgerðum

Hún fullyrti einnig að faraldurinn sem geisaði í Norður-Kóreu hafi verið af völdum Suður-Kóreu og varaði við hefndaraðgerðum.

Yfirvöld hafa áður sagt að faraldurinn hafi komið til Norður-Kóreu með „framandi hlutum“ sem höfðu lent nálægt landamærum landsins við Suður-Kóreu. Yfirvöld í Suður-Kóreu hafa hins vegar hafnað þessari fullyrðingu.

Árum saman hafa aðgerðarsinnar í Suður-Kóreu sleppt blöðrum yfir landamærin til norðurs til að senda bæklinga og mannúðaraðstoð til íbúa Norður-Kóreu.

Kim Yo Jong sagði að slíkar aðgerðir væru „glæpur gegn mannkyninu“.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert