McDonald's opnar aftur í Úkraínu

Fyrstu staðirnir munu opna í Kænugarði.
Fyrstu staðirnir munu opna í Kænugarði. mbl.is/AFP

Skyndibitakeðjan McDonald's hyggst opna staði sína í Úkraínu á ný, en þeir hafa verið lokaðir frá því að innrás Rússa hófst.

Forsvarsmenn McDonald's vonast til þess að með þessu verði hægt að færa Úkraínumönnum vott af því sem þeir áður þekktu sem hversdagsleika. Þetta kemur fram í frétt BBC.

Staðirnir munu opna hver af öðrum, smám saman, á næstu mánuðum. Fyrstu staðirnir verða opnaðir í Kænugarði og svo á fleiri stöðum í vesturhluta Úkraínu, sem eru í dag taldir öruggir. 

Yfir 100 staðir með fleiri en 10.000 í vinnu

Áður en stríðið hófst starfrækti McDonald's yfir 100 skyndibitastaði í Úkraínu. Þrátt fyrir að hafa þurft að loka þeim öllum, hefur fyrirtækið haldið áfram að greiða laun starfsfólksins, sem telur fleiri en tíu þúsund einstaklinga.

„Við höfum verið í töluverðum samskiptum við starfsfólk okkar í Úkraínu, sem hefur lýst yfir áhuga á því að fá að snúa aftur til vinnu og sjá staðina opna aftur,“ er haft eftir Paul Pomroy, aðstoðarforstjóra fyrirtækisins. 

Þá bætir hann við að stjórnvöld í Úkraínu hafi hvatt fyrirtæki til þess að hefja rekstur á ný á stöðum þar sem það er öruggt, enda komi það til með að styrkja efnahaginn í landinu og úkraínsku þjóðina.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert