Vilja Freyju feiga

Freyja sólar sig í rólegheitum við Jarlsberg í Tønsberg fyrr …
Freyja sólar sig í rólegheitum við Jarlsberg í Tønsberg fyrr í sumar. Rune Aae, rostungafræðingi og doktorsnema í náttúruvísindum, kom þetta ferðalag Freyju á óvart þar sem örskömmu áður hafði hún sést við Rogaland. Nú íhuga norsk yfirvöld að sálga dýrinu. Ljósmynd/Ella Malme

Norsk stjórnvöld velta því nú fyrir sér að sálga Freyju, einum þekktasta rostungi landsins fyrr og síðar, þar sem pupullinn láti sér ekki segjast þegar að því kemur að halda sig fjarri dýrinu.

„Sjávarútvegsstofnun telur háttsemi almennings verulega ábótavant, hann skellir skollaeyrum við ráðleggingum yfirvalda og stofnar þar með eigin lífi og limum í hættu,“ segir Nadia Jdaini, upplýsingafulltrúi stofnunarinnar, í samtali við norska ríkisútvarpið NRK.

Nýlega var greint frá því hér á mbl.is er Freyja birtist óvænt í Tønsberg, bæ á mörkum Austur- og Suður-Noregs og lagðist þar upp á bryggju við Jarlsberg þar sem viðstaddir heilsuðu upp á hana og hættu sér allnærri. Ræddi mbl.is þá við Rune Aae, doktorsnema í nátt­úru­vís­ind­um við Há­skól­ann í Suðaust­ur-Nor­egi í Horten og sérfræðing í hegðun rostunga.

Taldi Aae óvenjulegt að rostungur heimsækti svo hlýjar slóðir sem Tønsberg en í viðtali við aðra fjölmiðla tók hann undir varnaðarorð stjórnvalda og bað fólk að huga að því að það væri að nálgast mörg hundruð kílógramma þungt dýr sem enginn gæti vitað hvernig væri innanbrjósts. Rostungar gætu hreyft sig mun hraðar en útlit þeirra gæfi til kynna.

Upp á síðkastið hefur Freyja haldið sig í Óslóarfirðinum, býsna stóru svæði, og gerst þar nærgöngul við hvort tveggja sundfólk og frístundabáta. „Við íhugum nú að grípa til aðgerða, þar á meðal að aflífa hana,“ segir Jdaini upplýsingafulltrúi ómyrk í máli.

Máli sínu til stuðnings nefnir hún að sundfólk við Kadettangen, skammt frá Ósló, hafi synt að Freyju fyrr í vikunni og blandað við hana geði. Slíkt sé í hæsta máta óskynsamlegt.

„Þarna var fólk á öllum aldri sem skirrðist ekki við að hafa aðvaranir yfirvalda að engu og halda sig fjarri dýrinu. Við biðjum fólk einfaldlega um að hyggja að eigin öryggi og um leið velferð dýrsins,“ segir Jdaini og vísar til þess að Sjávarútvegsstofnun íhugi nú að stytta Freyju aldur.

NRK

NRKII (vara fólk við að nálgast Freyju)

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert