Flugmenn EasyJet grípa til verkfalls

EasyJet er lággjaldaflugfélag.
EasyJet er lággjaldaflugfélag. AFP

Flugmenn EasyJet á Spáni lögðu niður störf í dag. Þeir krefjast þess að fá til baka sömu kjör og vinnuaðstæður og þeir þekktu áður en heimsfaraldurinn Covid-19 skall á. 

Um þessar mundir er háannatími flugfélaga. Fyrirséð er að EasyJet mun þurfa að fella niður fjölda flugferða vegna verkfallsaðgerðanna, en í dag voru átta flug felld niður. Flest þeirra frá flugvellinum í Barcelona, sem er annar annasamasti flugvöllur Spánar. 

Þriggja daga verkföll þrisvar í ágúst

Áhöfn Ryanair, samkeppnisaðila EasyJet, hefur reglulega gripið til sólarhrings verkfalla frá því í júní. 

Flugmenn EasyJet ætla sér að leggja niður störf í þrjá daga, á flugvöllum Barcelona, Malaga og á eyjunum Majorca og Minorca. 

Þá eru áformuð tvö þriggja daga verkföll til viðbótar, seinna í ágúst.

Tóku á sig launalækkun í upphafi heimsfaraldurs

„Við samþykktum í upphafi heimsfaraldursins að taka á okkur launalækkanir. Var það bæði til þess að tryggja það að við héldum störfunum okkar, og til þess að tryggja framtíð flugfélagsins á Spáni,“ er haft eftir talsmanni stéttarfélags flugmannanna. 

„Nú neitar fyrirtækið aftur á móti að færa kjör okkar til fyrra horfs. Við erum ekki að biðja um neitt sem við höfðum ekki fyrir tveimur árum síðan.“

Flugfreyjur og flugþjónar EasyJet, gripu til verkfallsaðgerða fyrr í sumar. Því lauk þó með því að fyrirtækið samþykkti 22 prósenta launahækkun þeirra sem mun eiga sér stað á næstu þremur árum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert