Mun líklega missa auga eftir árásina

Rushdie var fluttur á sjúkrahús í Philadelphiu eftir árásina.
Rushdie var fluttur á sjúkrahús í Philadelphiu eftir árásina. AFP/Horatio Gates

Rithöfundurinn Salman Rushdie er nú í öndunarvél í kjölfar skurðaðgerðar, sem gerð var til þess að bjarga lífi hans eftir hnífsstunguárásina fyrr í dag. Umboðsmaður Rushdies segir að rithöfundurinn geti ekki talað, og að hann muni líklega missa annað augað eftir árásina. 

Andrew Wylie, umboðsmaður Rushdies, sagði við breska ríkisútvarpið BBC að útlitið væri ekki gott. „Salman mun líklega missa annað auga, taugarnar í handlegg hans skárust í sundur og lifrin hans varð fyrir stungu og skaddaðist,“ sagði Wylie. 

Ríkislögreglan í New York-ríki greindi frá því fyrr í kvöld að hún hefði handtekið 24 ára gamlan mann, Hadi Matar, fyrir árásina en hann er frá bænum Fairview í New Jersey. Enn er ekki búið að komast að því hver ástæða árásarinnar var, en Rushdie hefur mátt þola líflátshótanir af hálfu íslamista í rúma þrjá áratugi eftir að Khomeini, þáverandi erkiklerkur Írans, lýsti yfir dauðadómi á hendur honum fyrir bókina Söngva Satans

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert