Steggjun olli skelfingu

Júnínótt í sumar í olíuhöfuðborginni Stavanger þar sem steggjunargengi hræddi …
Júnínótt í sumar í olíuhöfuðborginni Stavanger þar sem steggjunargengi hræddi líftóruna úr gestum veitingahúss í gær. mbl.is/Atli Steinn Guðmundsson

Vopnuð lögregla þusti á vettvang í miðborg Stavanger í Noregi síðdegis í gær þegar henni bárust tilkynningar um hugsanlega hryðjuverkaárás á veitingastaðnum Olivia þar í borg.

Fékk lögregla að heyra þá lýsingu að maður með svokallaða Finnlandshettu sem svo kallast, lambhúshettu á íslensku, hefði kastað frá sér poka á veitingastaðnum, öskrað eitthvað á erlendri tungu og hlaupist á brott.

Eðlilega leist gestum veitingahússins ekki á atburðarásina og hringdu til lögreglu sem kom á staðinn grá fyrir járnum. Kom þá á daginn að verið var að „steggja“ ungan mann sem var á leið í hjónaband og var hryðjuverkaárásin meinta hluti af dagskránni.

Óttuðust um líf sitt

„Þetta er algjört hugsunarleysi, bara algjört,“ segir Jøran Solheim, varðstjóri hjá lögreglunni í Stavanger, í samtali við norska ríkisútvarpið NRK, „og ég gæti verið mun orðljótari hér. Nú ætlum við að skoða hvað við gerum gagnvart þessum vinahópi.“

NRK ræddi við fjölda vitna sem sum hver kváðust hafa óttast um líf sitt. Miðborgin í Stavanger var full af fólki í gær í blíðskaparveðri og 20 stiga hita, tvö stór skemmtiferðaskip í höfn þar. „Þetta var alveg skelfilegt, við héldum að þarna væri alvara á ferðum og að við værum að lifa okkar síðasta,“ segir Amalie Solli, gestur á Olivia, í samtali við NRK.

Kveður hún aðra gesti hafa tekið utan um þá sem þeir voru með og óttast það versta. „Auðvitað gleður það mig að þetta var bara steggjun en hér var fólk sem bjóst við dauðanum,“ segir hún.

Miguel Ángel Pérez tekur í sama streng. „Ég sá manninn hlaupa í burtu. Tveimur sekúndum síðar byrjaði pokinn sem hann kastaði frá sér að pípa. Ég forðaði mér samstundis. Ég var skíthræddur,“ segir Pérez af atburðum í Stavanger í gær.

NRK

Dagbladet

TV2

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert