„Sáum allt í einu þennan mikla svarta reyk“

Að minnsta kosti sex eru látnir og meira en 60 …
Að minnsta kosti sex eru látnir og meira en 60 slasaðir eftir sprenginguna í Armeníu. AFP/Karen Minasyan

„Ég var sem betur fer sjálfur í útjaðri borgarinnar, en við sáum mjög vel yfir hana og sáum allt í einu þennan mikla svarta reyk sem kom upp miðsvæðis í borginni,“ segir Árni Þór Sigurðsson, sendiherra Íslands í Rússlandi, í samtali við mbl.is.

Árni er staddur í Jerevan, höfuðborg Armeníu, þar sem mikil sprenging varð á markaði í gær. Að minnsta kosti sex eru látnir og fleiri en 60 slasaðir, samkvæmt AFP-fréttastofunni.

Fimmtán manns er einnig saknað, en talið er að þeir séu undir rústum byggingar í grennd við markaðinn, sem hrundi í kjölfar sprengingarinnar.

„Fyrst gengum við út frá því að það hefði orðið eldur eða svoleiðis, maður vissi ekki neitt fyrr en maður heyrði síðan fréttir. Þetta leit ekkert vel út þegar maður sá þetta í fréttunum í nærmynd,“ segir Árni.

Um flugeldamarkað að ræða

Ekki hefur verið gefið upp hvað olli sprengingunni, en að sögn Árna er um flugeldamarkað að ræða. Markaðurinn er miðsvæðis í höfuðborginni, en þó ekki í sjálfum miðbænum.

„Ég spurði Armena hérna út í þetta, sem sagði mér að flugeldasala sé leyfð allt árið í Armeníu og menn geti hvenær sem er keypt sér flugelda og skotið þeim upp, þannig að það er þarna markaður með flugeldum og það þarf náttúrulega ekki að segja neinum hversu eldfimt það er.

Það þarf lítið til þess að kveikja í þeim og ef það eru rosalegar birgðir af flugeldum þá getur náttúrulega orðið mikil sprenging,“ segir Árni.

Alls voru 200 slökkviliðsmenn og heilbrigðisstarfsmenn sendir á vettvang eftir sprenginguna.

„Ég er núna í miðbænum og þar svo sem gengur allt sinn vanagang þannig, en það er lokað af þetta svæði þar sem sprengingin varð og slökkviliðsmenn þar að störfum.“

„Þetta leit ekkert vel út þegar maður sá þetta í …
„Þetta leit ekkert vel út þegar maður sá þetta í fréttunum í nærmynd,“ segir Árni. AFP/Karen Minasyan
mbl.is