Finnar vilja fækka rússneskum ferðamönnum

Pekka Haavisto, utanríkisráðherra Finnlands, kynnti breytinguna í dag.
Pekka Haavisto, utanríkisráðherra Finnlands, kynnti breytinguna í dag. Emmi Korhonen / Lehtikuva / AFP

Finnar ætla að takmarka vegabréfsáritanir fyrir rússneska ferðamenn við tíu prósent af núverandi áritunum frá og með 1. september. Þetta gera þeir vegna vaxandi óánægju í landinu með rússneska ferðamenn vegna stríðsins í Úkraínu.

Eins og er afgreiðir Finnland um eitt þúsund rússneskar vegabréfsáritunarumsóknir á dag. Pekka Haavisto, utanríkisráðherra Finnlands, tilkynnti áform ríkisstjórnarinnar í dag. Sagði hann að til að takmarka áritanirnar verði opnunartímar takmarkaðir, en ekki er hægt að banna eitt ákveðið þjóðerni. 

Ráðherrann tilkynnti einnig að Finnar væru hlynntir því að slíta vegabréfasamningi Evrópusambandsins við Rússland. Yrði honum slitið hækkar verð vegabréfsáritana fyrir ferðamenn úr 35 evrum í 80.

Finnar hyggjast taka málið upp á næsta fundi utanríkisráðherra Evrópusambandsins í Tékklandi þann 30. ágúst.

mbl.is