Lífstíðardómur fyrir árásina í Trier

Eitt barn lést í árásinni.
Eitt barn lést í árásinni. AFP

Þýskur karlmaður hlaut lífstíðardóm í dag og var skipaður í geðlæknismeðferð fyrir að hafa ekið bíl sínum á vegfarendur í þýsku borginni Trier í desember árið 2020. Sex létu lífið í árásinni, þar á meðal eitt barn.

Héraðsdómur sakfelldi hinn 52 ára Bernd Weimann fyrir fimm morð og átján morðtilraunir, en sjötta fórnarlamb árásarinnar lést tæpu ári eftir hana.

Var undir áhrifum áfengis

Weimann hafði glímt við sálræn vandamál og var hann undir áhrifum áfengis þegar hann framdi árásina. Sérfræðingar sem mátu Weimann í réttarhöldunum greindu hann með geðklofa.

Árásin hefur ekki verið tengd við hryðjuverkasamtök né trúarlegar eða pólitískar skoðanir Weimann.

Ákæruvaldið taldi að slæm meðferð hins opinbera á honum hafi orðið til þess að hann hafi þróað með sér almennt hatur á mannkyninu, en Weimann var heimilislaus er hann framdi árásina.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert