Dæmd í 34 ára fangelsi fyrir að nota Twitter

AFP

Sádiarabískur háskólanemi hefur verið dæmdur í 34 ára fangelsi í heimalandinu fyrir að vera með Twitter-aðgang og fyrir að fylgja og endurtísta efni frá aðgerðarsinnum og andófsmanna. 

Neminn, sem er 34 ára gömul kona að nafni Salma al-Shehab, stundaði nám við háskólann í Leeds á Englandi. Þegar hún sneri heim til sín í frí þurfti hún að svara til saka við sérstakan hryðjuverkadómstól í Sádi-Arabíu sem sakfelldi hana, að því er segir í umfjöllun breska blaðsins The Guardian. 

Fram kemur í umfjöllun Guardian að málið sé enn eitt dæmið um það hvernig Mohammed bin Salman, krónprins Sádi-Arabíu, beini spjótum sínum gegn Twitter-notendum til að draga úr tjáningarfrelsi andófsmanna og lýðræðissinna í landinu. Á sama tíma eigi Salman stóran hlut í Twitter í gegnum sádiarabíska fjárfestingarsjóðinn PIF. 

Nýverið heimsótti Joe Biden Bandaríkjaforseti Sádi-Arabíu sem mannréttindasamtök höfðu varað við, því þau töldu að heimsókn Biden myndi vera vatn á myllu Sádi-Araba í baráttunni gegn andófi og þeirra einstaklinga sem vilja berjast fyrir auknu lýðræði í landinu. 

Shebab er tveggja barna móðir. Hún var upphaflega dæmd í þriggja ára fangelsi fyrir að hafa farið á vefsíðu í þeim tilgangi að skapa óróa meðal almennings og grafa undan öryggismálum landsins. 

Áfrýjunardómstóll þyngdi þann dóm verulega í gær þegar hún var dæmd í 34 ára fangelsi og sett í ferðabann til 34 ára. Þetta varð niðurstaðan eftir að ákæruvaldið hafði beðið dómstólinn um að taka tillit til annarra meintra afbrota Shebab. Í frétt Guardian segir að Shebab hafi m.a. verið sökuð um að aðstoða fólk sem vilji ýta undir óstöðugleika og ógna öryggi landsins með því að fylgja Twitter-aðgangi þeirra og með því að endurtísta færslur frá þeim. 

Talið er að Shehab geti mögulega áfrýjað dómnum á nýjan leik. 

Hún var með um 2.500 fylgjendur á Twitter þar sem hún birti aðallega færslur um kulnun í kjölfar Covid-faraldursins. Hún endurtísti stundum færslur frá sádiarabískum andófsmönnum sem hafa verið í útlegð og hafa kallað eftir því að pólitískum föngum verði sleppt úr haldi í heimalandinu. Svo virðist sem að Shebab hafi stutt mál Loujain al-Hathloul, sem er þekktur femínisti og aðgerðarsinni í landinu, sem hafði fangelsuð. Hún er sögð hafa verið pyntuð fyrir að hafa stutt rétt kvenna til að aka bifreiðum og þarf nú að sæta ferðabanni. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert