Drukknaði í Gardavatni við að bjarga syni sínum

Lík mannsins fannst á 316 metra dýpi í Gardavatni á …
Lík mannsins fannst á 316 metra dýpi í Gardavatni á Ítalíu. AFP

Lík bresks manns sem stökk úr bát til að bjarga syni sínum hefur fundist í Gardavatni á Ítalíu. Hans hafði verið saknað síðan hann stökk út í vatnið þann 22. júlí, en sjálfboðaliðar strandgæslunnar fundu lík hans síðdegis í gær.

Maðurinn, Aran Chada frá Leicestershire, fór í frí til Ítalíu í síðasta mánuði ásamt konu sinni og tveimur börnum. Fjölskylda mannsins er nú í Bretlandi en mun snúa aftur til Ítalíu til að bera kennsl á líkið. 

BBC greinir frá þessu, en talið er að fríið hafi verið skipulagt í tilefni 52 ára afmælis Chada.

Sonurinn lenti í vandræðum við Limone

Fjölskyldan hafði leigt bát til að sigla um vatnið og lenti sonur Chada í vandræðum við strendur Limone, sem er vinsæll ferðamannastaður við Gardavatn.

„Móðirin öskraði og faðirinn stökk í vatnið,“ sagði vitni við fjölmiðla þegar atburðurinn átti sér stað í júlí.

Lík Chada fannst á 316 metra dýpi og í 800 metra fjarlægð frá Limone. Samkvæmt strandgæslunni var drukknun hans „líklega af völdum veikinda“ í kjölfar björgunar sonar hans.

mbl.is