Hætti að ráðast á alríkislögregluna

Mike Pence var varaforseti Bandaríkjanna í stjórnartíð Donalds Trumps.
Mike Pence var varaforseti Bandaríkjanna í stjórnartíð Donalds Trumps. AFP/Ryan M. Kelly

Mike Pence, varaforseti Bandaríkjanna í stjórnartíð Donalds Trumps, hefur kallað eftir því að repúblikanar hætti að ráðast að Alríkislögreglunni (FBI) vegna leitar hennar á heimili Trumps í Flórída. New York Times segir frá.

Þingmenn repúblikana í Bandaríkjunum hafa brugðist við leitinni af mikilli heift. Sumir hafa gengið svo langt að kalla eftir því að minnka fjármagn til FBI eða jafnvel að „rústa“ stofnuninni.

„Kröfur um að draga úr fjármagni til FBI eru alveg jafn slæmar og að draga úr fjármagni til lögreglunnar,“ sagði Pence á „Pólitík og egg“ viðburði í New Hampshire í dag.

Íhugar að tala við rannsóknaraðila

Pence sagði einnig í dag að hann myndi íhuga það að tala við rannsóknaraðila sem rannsaka árásina á þinghúsið í Washington-borg. Hann hefur ekki gefið út áður svo skýr skilaboð að hann sé tilbúinn að leggja rannsókninni lið.

Pence bætti þó við að það væri „fordæmalaust í sögulegu samhengi“ fyrir varaforseta „að vera kallaður sem vitni á Capitol hæð.“

Blaðamaður New York Times telur líklegt að Pence sé með þessu að undirbúa sig til að bjóða sig fram sem forsetaefni Repúblikanaflokksins. Hann sé tilbúinn að kljúfa sig frá þeim hluta flokksins sem er tryggur Trump.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert