Vörður féll í yfirlið í miðju ávarpi Frans páfa

Talið er að vörðurinn hafi fengið blóðþrýstingsfall.
Talið er að vörðurinn hafi fengið blóðþrýstingsfall. AFP

Svissneskur vörður féll í yfirlið í dag þegar Frans páfi hélt sitt vikulega ávarp í Vatíkaninu. 

Maðurinn féll til jarðar við upplestur úr trúarlegum texta, en honum var strax hjálpað á fætur og fylgt út úr salnum.

Frans páfi gaf sér tíma eftir ávarpið til að athuga hvernig verðinum heilsaðist, en talsmaður Vatíkansins telur að hann hafi að öllum líkindum orðið fyrir blóðþrýstingsfalli.

Þess má geta að hitabylgja hefur gengið yfir Ítalíu í sumar og í dag fór hitinn upp í 36 gráður í ítölsku höfuðborginni.

Verðinum var komið til aðstoðar skömmu eftir fallið.
Verðinum var komið til aðstoðar skömmu eftir fallið. AFP

Ströng skilyrði fylgja stöðunni

Svissnesku verðirnir eru fámennasti her heims, en liðsmenn varðarins eru 135 talsins og eiga að standa vörð um páfann í það minnsta 26 mánuði.

Menn þurfa að uppfylla ákveðin skilyrði til að fá að starfa sem vörður páfans, en meðal annars þurfa þeir að vera strangkaþólskir, á aldrinum 19 til 35 ára og mega ekki vera lægri en 147 sm. 

Þeir þurfa auk þess að vera með svissneskan ríkisborgararétt og einhleypir á meðan þeir eru við störf. Þeim er þó heimilt að ganga í það heilaga seinna meir. 

Það hefur verið ansi heitt í Rómarborg.
Það hefur verið ansi heitt í Rómarborg. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert