Danski sjóherinn fær 760 milljarða

Morten Bodskov, varnarmálaráðherra Danmerkur, fyrr í mánuðinum.
Morten Bodskov, varnarmálaráðherra Danmerkur, fyrr í mánuðinum. AFP/Martin Sylvest/Ritzau Scanpix

Danir ætla að eyða 40 milljörðum danskra króna, eða um 760 milljörðum íslenskra króna, í sjóher landsins á næstu 20 árum. Með þessu verður sjóherinn útbúinn í samræmi við nýjar öryggiskröfur í kjölfar innrásar Rússa í Úkraínu.

Að sögn varnarmálaráðherra Danmerkur, Mortens Bodskov, eru Danir reiðubúnir til að smíða sín eigin herskip.

„Við stöndum frammi fyrir alvarlegum vanda í Evrópu. Það er stríð í Evrópu. Við erum nýbúin að ganga í gegnum kórónuveirufaraldur og það sem er sameiginlegt með þessu tvennu er að þetta hefur skapað vandamál við að tryggja öryggi þegar kemur að varningi okkar,“ sagði Bodskov.

„Það er ekki hagkvæmt, sérstaklega þegar stríð ríkir í Evrópu, ef danskar varnir eiga í vandamálum með að fá aðra til að smíða skip eða aðra hluti fyrir sig,“ bætti hann við.

„Þess vegna erum við að grípa núna til aðgerða“ til að geta uppfært danska flotann, sagði hann.

Bodskov greindi ekki frá því hversu mörg skip verða smíðuð næstu tvo áratugina en tók fram að þó nokkur skip væru orðin gömul og þörf sé á nýjum í staðinn. 

mbl.is
Loka