Fjármálastjóri Trumps játar skattsvik

Allen Weisselberg lét meðal annars fyrirtækið greiða skólagjöld fyrir barnabörn …
Allen Weisselberg lét meðal annars fyrirtækið greiða skólagjöld fyrir barnabörn sín. AFP/Stephanie Keith

Fjármálastjóri Donalds Trumps á árunum 2005 til 2021 hefur játað skattsvik fyrir dómi í Bandaríkjunum. Hann hefur þar að auki samþykkt að bera vitni í dómsmáli gegn fasteignafélagi Trumps.

Allen Weisselberg var fjármálastjóri hjá Trump-samsteypunni í um 16 ár. Hann hefur nú játað skattsvik í 15 liðum, segir Alvin Bragg, saksóknari í New York-borg.

Weisselberg hefur þvertekið fyrir að vitna gegn Donald Trump sjálfum. Trump var forstjóri Trump-samsteypunnar alveg þangað til að hann varð forseti Bandaríkjanna árið 2017.

Fimm mánaða fangelsi

Weisselberg gæti þurft að sitja í fangelsi í aðeins fimm mánuði vegna skattsvikanna en ef hann mun ekki vitna í dómsmáli gegn Trump-samsteypunni gæti hann fengið lengri fangelsisvist.

Fjármálastjórinn fyrrverandi játaði að hafa svikið undan skatti 1,76 milljónir bandaríkjadala eða því sem nemur tæpum 245 milljónum íslenskra króna. Hann mun þurfa að greiða þann pening til baka auk gjalda og vaxta.

„Weisselberg lét Trump-samsteypuna útvega sér fría íbúð til útleigu, dýra bíla, skólagjöld í einkaskóla fyrir barnabörnin sín og ný húsgögn, allt án þess að borga skatt,“ sagði saksóknarinn Alvin Bragg.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert