Gæti dregið CO2 losun saman um 700 milljónir tonna

Framleiðsla hjóla á heimsvísu á árunum 1962 til 2015 var …
Framleiðsla hjóla á heimsvísu á árunum 1962 til 2015 var meiri en framleiðsla á bifreiðum. mbl.is/Hari

Hægt væri að draga úr losun koltvísýrings út í andrúmsloftið (CO2) um næstum 700 milljónir tonna í heiminum ár hvert ef hver einstaklingur myndi hjóla daglega, samkvæmt niðurstöðum nýrra rannsókna.

Til að draga úr losun koltvísýrings í samgöngum hafa stjórnvöld víða snúið sér að aukinni framleiðslu á rafknúnum ökutækjum, en 6,75 milljónir slíkra eintaka seldust árið 2021.

Hingað til hefur verið erfitt að reikna út kaup og notkun á reiðhjólum, en teymi vísindamanna hefur nú tekið saman fyrsta alþjóðlega gagnasafnið um eignarhald og notkun reiðhjóla eftir löndum, allt aftur til sjöunda áratugarins, til að fylla upp í eyðurnar.

Aukin kaup ekki endilega aukin notkun

Framleiðsla hjóla á heimsvísu á árunum 1962 til 2015 var meiri en framleiðsla á bifreiðum.

Þá voru almennt fleiri sem áttu reiðhjól í tekjuhærri löndum, en fjöldi bílferða var þar einnig mestur. Aukin kaup reiðhjóla leiddi því ekki endilega til aukinnar notkunar þeirra.

Af þeim 60 löndum sem litið var til var hlutfall ferða á hjóli aðeins fimm prósent. Sum lönd skorti birgðir, á meðan fólk í öðrum löndum, eins og Bandaríkjunum, höfðu tilhneigingu til að líta á hjólreiðar sem tómstundastarf frekar en ferðamáta.

Í ljós hefur komið að ef allir færu „dönsku leiðina“ og hjóluðu að meðaltali 1,6 kílómetra á dag væri hægt að draga úr losuninni um 414 milljónir tonna á ári, sem jafngildir árlegri losun í Bretlandi.

Ef fólk myndi hins vegar hjóla 2,6 kílómetra daglega, líkt og Hollendingar gera, yrði dregið úr losuninni um 686 milljónir tonna, sem er meira en árleg losun í Kanada.

mbl.is