Hvetja ungt fólk til þess að drekka meira áfengi

Átak er í Japan um að fá ungt fólk til …
Átak er í Japan um að fá ungt fólk til drekka meira áfengi. AFP/KENZO TRIBOUILLARD

Ungt fólk í Japan drekkur lítið áfengi og vonast yfirvöld þar í landi til þess að breyta því með nýju kynningarátaki. BBC segir frá.

Fram kemur að yngri kynslóðin drekkur minna áfengi en foreldrar þeirra og hafa skatttekjur lækkað töluvert vegna minni drykkju.

Japönsk skattayfirvöld hafa ákveðið að skerast í leikinn með því að kynna til leiks kynningarátak sem gengur út á að koma með hugmyndir til þess að sporna við þessari þróun.

Sake Viva!

Tilgangurinn með átakinu „Sake Viva!“ er að koma með áætlun til þess að bæta horfur á áfengismarkaði og gera neyslu áfengis meira aðlaðandi.

Fólk á aldrinum 20-39 ára er beðið um að deila viðskiptahugmyndum sem gagnast gætu til að auka eftirspurn eftir áfengi á meðal jafnaldra sinna – sama hvort það er eftir japönsku sake, viskíi, bjór eða víni.

Japanskir fjölmiðlar segja að viðbrögðin hafi verið misgóð og hafa sumir gagnrýnt átakið fyrir að styðja við óheilbrigt líferni. 

Áfengismarkaðurinn að dragast saman

Þátttakendur hafa ráðrúm fram til loka ágúst til þess að koma með hugmyndir. Bestu hugmyndirnar verða síðan þróaðar með aðstoð sérfræðinga áður en tillögurnar verða kynntar í nóvember.

Á vefsíðu átaksins segir að áfengismarkaðurinn sé að dragast saman, en ástæðurnar sem búa þar að baki eru meðal annars stækkandi hópur eldri borgara og lækkandi fæðingartíðni.

Samkvæmt tölum frá Alþjóðabankanum, World Bank, er nánast einn þriðji (29%) af öllum íbúum í Japan 65 ára eða eldri, en það er hæsta hlutfall eldri borgara í heiminum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert