Röktu ferðatösku til hlaðmanns með hjálp AirTag

Taskan skilaði sér ekki á færibandið.
Taskan skilaði sér ekki á færibandið.

Týnd ferðataska fannst á heimili flugvallarstarfsmanns eftir að eigandi töskunnar hafði sett staðsetningartæki af gerðinni Apple AirTag í töskuna. Með hjálp tækisins tókst lögreglunni í Flórída að rekja töskuna til heimilis starfsmannsins, þar sem annar stolinn farangur kom einnig í ljós.

Í töskunni var farangur að virði rúmlega 16 þúsund bandaríkjadala, eða rúmlega tveggja milljóna íslenskra króna. Hefur starfsmaðurinn varið ákærður fyrir þjófnað í tveimur ákæruliðum. 

Starfsmaðurinn sem um ræðir er 19 ára hlaðmaður á flugvellinum Destin-Fort Walton Beach, að nafni Giovanni De Luca, að því er fram kemur í umfjöllun New York Times.

Farangurinn skilaði sér ekki

Eigandi töskunnar var kona sem flaug með Delta og Air France til Flórída, en þegar hún kom á áfangastað skilaði farangurinn sér ekki á töskubandið. 

Í farangrinum voru föt, förðunarvörur og AirTag frá Apple, eins og áður sagði, en það er þráðlaust staðsetningartæki, tengt við símann, sem sendir frá sér merki um staðsetningu sína. 

Tveimur vikum eftir að konan hafði lent í Flórída fékk hún tilkynningu um það í símann að staðsetningartækið hefði verið á ferð um götu í Mary Esther, sem er bær nálægt flugvellinum. 

Fann staðsetningartækið og eyðilagði

Lögregluyfirvöld fóru þá í gegnum starfsmannaskrá flugvallarins og fundu þar starfsmann sem bjó við umrædda götu. 

Þá barst önnur tilkynning um að skartgripum, að andvirði tveggja milljóna króna, eða 15 þúsund bandaríkjadala, hefði verið stolið úr farangri manns sem lenti á þessum sama flugvelli. Var sami starfsmaðurinn á vakt þann dag. 

Fékkst húsleitarheimild og á heimili De Luca fannst allt þýfið. 

Hann játaði að hafa fundið staðsetningartækið í töskunni og eyðilagt það, en til þess ráðs greip hann of seint.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert