Dóttir bandamanns Pútíns lést í bílasprengju

Dugin er stundum kallaður „heili“ Pútíns.
Dugin er stundum kallaður „heili“ Pútíns. Ljósmynd/Skjáskot BBC

Dóttir Alexanders Dugin, náins bandamanns Vladimir Pútíns Rússlandsforseta, lést í bílasprengju í gærkvöldi í nágrenni Moskvu. BBC greinir frá.

Darya Dugina og faðir hennar höfðu verið heiðursgestir á hátíð rétt fyrir utan Moskvu og var Darya á heimleið þegar sprengingin varð.

Feðginin höfðu ætlað að fara í sama bíl heim en Dugin breytti áformum sínum á síðustu stundu og var dóttir hans því ein í bílnum. Getgátur eru um að Dugin hafi verið skotmarkið en ekki dóttir hans.

Dugin, sem er heimspekingur og stjórnmálamaður sem aðhyllist öfga-þjóðernisstefnu, er náinn bandamaður Pútíns og er stundum sagður vera „heili“ forsetans. Hann er talinn hafa átt mikinn þátt í móta stefnu Pútíns þegar kom að innrásinni í Úkraínu.

Dugina var sjálf þekkt blaðakona sem var dugleg að dreifa boðskap föður síns og hafði opinberlega greint frá stuðningi sínum við innrásina í Úkraínu.

mbl.is