Trump höfðar mál gegn dómsmálaráðuneytinu

Donald Trump í júlí síðastliðnum.
Donald Trump í júlí síðastliðnum. AFP/Ronda Churchill

Donald Trump, fyrrverandi Bandaríkjaforseti, hefur höfðað mál gegn bandaríska dómsmálaráðuneytinu. Hann hvetur dómstól til að tilnefna sjálfstæðan aðila til að skoða skjölin sem bandaríska alríkislögreglan, FBI, fann á heimili hans í Flórída fyrr í mánuðinum.

Í málshöfðuninni segir Trump að pólitískar ástæður séu að baki leitinni og krefst þess að „sérstakur meistari“ verði tilnefndur til að skoða skjölin, sem fundust í yfir 20 boxum á heimili hans.

Þessi „sérstaki meistari“ myndi ekki starfa undir stjórn dómsmálaráðuneytisins, sem fyrirskipaði leitina, heldur myndi hann meta skjölin og ákveða hverjum þeirra Trump gæti haldið eftir vegna forréttinda hans eða vegna sérstakrar verndar frá rannsóknum.

„Innbrotið í Mar-a-Lago, húsleitin og það sem lagt var hald á var ólöglegt og braut gegn stjórnarskránni og við ætlum að gera allt sem við mögulega getum til að ná skjölunum til baka,“ sagði Trump í yfirlýsingu.

mbl.is