„Ömurlegt“ að þurfa að taka út efni

„Þegar við tökum eitthvað niður sem við hefðum betur sleppt, …
„Þegar við tökum eitthvað niður sem við hefðum betur sleppt, það er það versta,“ sagði Zuckerberg. Skjáskot/Joe Rogan

Mark Zuckerberg, forstjóri Meta, segir að Facebook hafi bannað umfjöllun The New York Post um fartölvu Hunters Bidens í aðdraganda forsetakosninganna í Bandaríkjunum árið 2020 vegna viðvarana alríkislögreglunnar. BBC greinir frá.

Bæði Facebook og Twitter takmörkuðu dreifingu fréttarinnar á miðlum sínum, þar til bæði fyrirtækin skiptu um stefnu vegna ásakana um of mikla ritskoðun.

Zuckerberg sagði í hinu vinsæla en umdeilda hlaðvarpi Joes Rogans að það sé alltaf ömurlegt þegar þau geri mistök þegar kemur að ritskoðun miðilsins.

„Þegar við tökum eitthvað út sem við hefðum betur sleppt, það er það versta,“ sagði Zuckerberg í hlaðvarpinu.

„Þetta er eins og þegar fólk þarf að ganga í gegn um réttarhöld þegar það er síðar sýknað. Bara ömurlegt.“

Fartölva sem gleymdist í viðgerð

Í greininni, sem enn er umdeild, er Joe Biden gefið að sök að hafa skipulagt fund með úkraínskum orkurisa og auðjöfri til að hjálpa fyrirtæki sonar síns, Hunters, að ná fótfestu í Úkraínu.

Engin ummerki um að slíkur fundur hafi átt sér stað hafa fundist í fundaskrá Bidens. Byggist umfjöllunin á tölvupóstum úr fartölvudrifi sem Hunter Biden á að hafa gleymt eða skilið eftir hjá viðgerðarfyrirtæki.

Greinin, sem birt var örfáum vikum áður en gengið var til kosninga í Bandaríkjunum, hefur lengi vel verið umdeild og aðeins verið til umfjöllunar í The New York Post, þar sem aðeins sá miðill er með drifið undir höndum. Þá var hún sérstaklega umdeild þar sem Rudy Giuliani, lögfræðingur Trumps, var sá sem kom drifinu í hendur New York Post.

Lyktaði af villandi áróðri

Zuckerberg sagði í hlaðvarpinu frá baksögunni. „Alríkislögreglan kom til okkar og talaði við ýmsa í teyminu okkar,“ sagði hann og bætti við að þau hafi verið hvatt til þess að sýna aðgát eftir fremsta megni í ljósi þeirra áhrifa sem Rússar höfðu á kosningarnar árið 2016 með því að dreifa áróðri.

„Við erum með upplýsingar um að það stefni í holskeflu áróðurs, svipað og árið 2016,“ segir Zuckerberg að alríkislögreglan hafi sagt.

Hún hafi ekki varað Facebook sérstaklega við sögunni um tölvu Hunters sérstaklega, heldur þótti Facebook sú saga „passa í sömu formgerð“ og villandi áróðurinn sem var verið að taka niður í kosningabaráttunni.

Spurður hvort hann sæi eftir því að hafa merkt söguna sem villandi svaraði Zuckerberg að svona lagað væri alltaf pólitískt. Fólk teldi fyrirtækið ýmist ritskoða of lítið eða of mikið.

mbl.is