Rússar hindra samþykkt um kjarnorkuafvopnun

Kjarnorkuverið Zaporizhzhia.
Kjarnorkuverið Zaporizhzhia. AFP/Ed Jones

Rússar hafa komið í veg fyrir útgáfu sameiginlegrar yfirlýsingar að lokinni fjögurra vikna ráðstefnu Sameinuðu þjóðanna um kjarnorkuafvopnun.

Rússar segjast vera ósáttir við „póltískan“ hluta textans.

Samningur um kjarnorkuafvopnun, sem 191 þjóð endurskoðar á fimm ára fresti, hefur það að markmiði að koma í veg fyrir útbreiðslu kjarnorkuvopna, hvetja til algjörrar afvopnunar og að hvetja til samstarfs varðandi friðsamlega notkun á kjarnorku.

Þjóðirnar hafa rætt saman í höfuðstöðvum Sameinuðu þjóðanna í New York síðan 1. ágúst, þar á meðal á lokafundi sem frestað var í þó nokkrar klukkustundir í gær.

Að lokum sagði forseti ráðstefnunnar, Gustavo Zlauvinen frá Argentínu, að ráðstefnan væri „ekki í stöðu til að ná samkomulagi“ eftir að Rússar gerðu athugasemdir við textann.

„Jafnvægi“ skorti

Fulltrúi Rússa, Igor Vishnevetsky sagði að drögin að lokatextanum, sem voru næstum 30 blaðsíður að lengd, hafi skort „jafnvægi“.

„Samninganefnd okkar gerir stóra athugasemd við suma hluta textans sem eru mjög pólitískir í eðli sínu,“ sagði hann og bætti við að Rússland væri ekki eina þjóðin sem væri óánægð með textann.

Að sögn heimildarmanna sem tengjast ráðstefnunni voru Rússar sérstaklega mótfallnir texta sem snýr að kjarnorkuverinu Zaporizhzhia sem rússneski herinn hefur tekið yfir.

Í lokadrögunum var lýst yfir „alvarlegum áhyggjum“ vegna hernaðar í kringum úkraínsk kjarnorkuver, sérstaklega í Zaporizhzhia, en einnig vegna þessa að Úkraínumenn hafi misst stjórn á slíkum stöðum og neikvæð áhrif þess þegar kemur að öryggi.

mbl.is

Bloggað um fréttina