Aðferðafræðin felist í því að þvinga óvininn út

Mynd tekin af sprengingum í úthverfum borgarinnar Mikolaív í dag. …
Mynd tekin af sprengingum í úthverfum borgarinnar Mikolaív í dag. Borgin er í grennd við Kerson-héraðið. AFP/Dímítar Dílkoff

Hernaðarsérfræðingar telja að gagnárás Úkraínumanna í Kerson-héraðinu muni ekki verða skammvinn. Virðist stefna úkraínska hersins vera að veikja varnir rússneska hersins hægt og bítandi samhliða því sem að sá úkraínski er styrktur með aðstoð Vesturlandanna. 

Úkraínumenn muni líklega halda áfram að reyna að loka á birgðaleiðir rússneska hersins með notkun Himar-eldflaugakerfanna. 

Þá muni úkraínski herinn líklega reyna að koma sér hjá hörðum bardögum á götum Kerson borgarinnar til að forðast mannfall almennra borgara.

BBC greinir frá.

Harðir bardagar í Kerson

Greint hefur verið frá hörðum bardögum í Kerson-héraðinu í Úkraínu þar sem Úkraínumenn eru sagðir reyna að endurheimta landsvæði í suðurhluta landsins sem Rússar hafa hernumið. 

Kerson, höfuðborg Kerson-héraðs, var fyrsta stórborgin sem féll í hendur rússneska hersins þegar innrásin hófst í lok febrúar á þessu ári. 

Í gær kváðust Úkraínumenn hafa brotið sig í gegnum fremstu varnarlínu rússneska hersins. Rússar sögðu aftur á móti árás Úkraínumanna hafa verið misheppnaða. Varnarmálaráðuneyti Rússlands sagði sömuleiðis Úkraínumenn hafa orðið fyrir miklu mannfalli.

Ekki liggur fyrir hvor fullyrðingin reynist rétt. 

Hafa verið þögulir um árásina

Gagnárás Úkraínumanna virðist nú vera hafin af alvöru en háttsettir úkraínskir embættismenn hafa verið þögulir um árásina síðustu daga og ekki viljað veita of mikið af upplýsingum. Hafa þeir beðið úkraínsku þjóðina um að sýna þolinmæði í þeim efnum. 

Úkraínumenn hafa unnið hörðum höndum að því síðustu vikur að loka á birgðaleiðir til rússneskra hersveita á vesturbakkanum við ána Dnípró. Samkvæmt upplýsingum frá úkraínska hernum hefur þeim tekist að sprengja þrjár brýr með þeim afleiðingum að þær urðu ónothæfar.

Yfirvöld í Úkraínu vilja þó halda eftirvæntingum í lágmarki og hafa varað við því að líklega muni gagnárásin taka sinn tíma.  

Þvinga óvininn út

Míkhaíló Sjírókov, úkraínskur hernaðarsérfræðingur, segir við BBC að líklega muni úkraínski herinn reyna að forðast harða bardaga á götum Kerson borgar þar sem slíkt myndi líklega fela í sér mikið mannfall. 

Taldi hann aðferðafræði Úkraínuhers felast í því að „þvinga óvininn út.“ Þetta myndi þó ekki gerast á skömmum tíma. 

Taldi hann að Úkraínumenn ættu að miða að því að bjóða rússneskum hermönnum þann kost á að draga sig til baka. Annars myndu þeir berjast til síðasta manns.

Taldi hann síðasta möguleikann á því að veita slíkt tækifæri vera um miðjan október. Eftir það munu flestir vegirnir verða ófærir út af mold og drullu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert