Apabólufaraldurinn á niðurleið

Alþjóðaheilbrigðisstofnunin segir apabólufaraldurinn á niðurleið í Evrópu.
Alþjóðaheilbrigðisstofnunin segir apabólufaraldurinn á niðurleið í Evrópu. AFP/Pascal Guyot

Alþjóðaheilbrigðisstofnunin (WHO) greinir frá því að apabólufaraldurinn sé á niðurleið í Evrópu og að góð teikn séu á lofti, en hvetur lönd jafnframt til þess að herða á áætlunum til að sporna við útbreiðslunni.

„Það eru jákvæð teikn á lofti, eins og við sjáum í Frakklandi, Þýskalandi, Portúgal, Spáni, Bretlandseyjum og fleiri löndum þar sem hægir á útbreiðslunni,“ sagði Hans Kluge, umdæmisstjóri WHO í Evrópu, í samtali við fréttamenn AFP.

Yfir 22 þúsund tilfelli apabólu hafa greinst í 43 löndum í umdæmi WHO í Evrópu, en það er meira en tveir þriðju tilfella á alþjóðavísu. Í síðustu viku greindi WHO frá 21 prósent lækkun tilfella í heiminum, eftir stöðuga aukningu síðustu fjórar vikurnar á undan.

Vilja auka samskipti við samkynhneigða karlmenn

WHO hvetur lönd til til þess að auka eftirlit, fjölga í smitrakningarteymum, útvega bólusetningar, og eiga samtal við samkynhneigða karlmenn þar sem veiran hefur aðallega verið að breiðast út meðal þeirra.

Kluge nefnir að Portúgal hafi náð árangri í því að hægja á útbreiðslunni með því að auka samskipti við samfélög samkynhneigðra karla og breyta þannig ákveðnu hegðunarmynstri.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert