Gorbatsjov og bréfið óvenjulega

Gorbatsjov lést í gær 91 árs að aldri.
Gorbatsjov lést í gær 91 árs að aldri. AFP/Grigory Dukor

Tveimur árum fyrir fall Sovétríkjanna fékk leiðtogi þeirra, Mikhaíl Gorbatsjov, óvenjulegt bréf frá Ayatollah Ruhollah Khomeini, þáverandi erkiklerki Íran.

Gorbatsjov lést í Moskvu í gær 91 árs að aldri en áhrif hans á söguna verða seint ofmetin. 

Bréfið sem Gorbatsjov fékk voru skilaboð frá Khomeini um að leiðtogi Sovétríkjanna skyldi fræða sig um Íslam, enda væri það eina leiðin til að tryggja frið bæði í Vesturlöndum og í Austrinu.

„Herra Gorbatsjov, það er öllum ljóst að kommúnismi á heima á safni heimspólitíkurinnar, þar sem Marxismi getur ekki uppfyllt þarfir mannkynsins,“ skrifaði Khomeini í bréfinu.

Trúleysi leiði til falls Vesturlanda

Khomeini sendi bréfið vegna þess að hann taldi að Gorbatsjov hefði tekið að sér „að endurskoða kerfi Sovíetríkjanna síðan hann tók við sem leiðtogi“.

„Herra Gorbatsjov, þú verður að horfast í augu við sannleikann: helsti ágallinn á landinu hefur ekkert með eignarhald, efnahag eða frelsi að gera, heldur trúleysi á Guð. Sami vandi og hefur leitt til eða mun leiða til falls og dauða Vestursins,“ hélt Khomeini fram í bréfinu.

Íslam væri þá lausnin við vandanum, að mati þáverandi erkiklerksins, sem lést stuttu síðar.

„Ég biðla til þín að fræða þig alvarlega um Íslam. Hin sterku og alþjóðlegu gildi Íslam geta verið huggun og sáluhjálp fyrir allar þjóðir, og veitt lausn á grundvallarvandamálum mannkynsins,“ stóð ennfremur í bréfinu.

Gorbatsjov sagði af sér í desember 1991 eftir að sovésk ríki höfðu tekið að falla víðsvegar um Austur-Evrópu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert