Kínverjar mögulega sekir um glæpi gegn mannkyni

Þetta kemur fram í skýrslu Sameinuðu þjóðanna um meðferð Kínverja …
Þetta kemur fram í skýrslu Sameinuðu þjóðanna um meðferð Kínverja á Úígúrum í Xinjiang-héraði í Kína. Á mynd er Michelle Bachelet, mannréttindafulltrúi SÞ, en hún sagði starfi sínu lausu stuttu eftir birtingu téðrar skýrslu. AFP

Sameinuðu þjóðirnar hafa varað við því að mögulega hafa átt sér stað glæpir gegn mannkyni af hálfu Kínverja vegna meðferðar þeirra á Úígúrum í Xinjiang-héraði í Kína. Þetta kemur fram í skýrslu SÞ.

Rúmt ár er síðan Michelle Bachelet, mannréttindafulltrúi Sameinuðu þjóðanna, sagði að nauðsynlegt væri að gera úttekt á meðferð Kínverja á Úígúrum í Xinjiang-héraði, en skýrslan birtist skömmu eftir að Bachelet sagði starfi sínu lausu.

Í skýrslunni segir að umfang handahófskenndrar mismununar Kínverja á Úígúrum og öðrum múslimum í héraðinu gæti lögum og stefnum samkvæmt falið í sér alþjóðaglæpi, einkum glæpi gegn mannkyni.

Þá segir í umræddri skýrslu að ásakanir á hendur Kínverja um að pyndingar og þvingaðar læknismeðferðir af hálfu Kínverja hafi átt sér stað væru trúverðugar og að þörf væri á brýnum aðgerðum á alþjóðavettvangi.

Uppfært: 

Mbl.is barst í dag athugasemd frá sendiráðsfulltrúa í kínverska sendiráðinu á Íslandi vegna þess sem fram kemur í frétt AFP. 

„Í þessari svokölluðu úttekt eru settar fram ósannar ásakanir til þess að skaða orðspor Kína og fela í sér afskipti af innanríkismálum í Kína. Gengur það í berhögg við tilgang og gildi  Sameinuðu þjóðanna og grefur undan trúverðugleika og hlutleysis embættis mannréttindafulltrúa Sameinuðu Þjóðanna. 

Þessi svokallaða úttekt er einfaldlega farsi samin af einhverjum ríkjum á vesturlöndum og þeim sem andsnúnir eru Kína. Staðreyndir segja meira en orð og réttlætið býr í hjörtum fólksins. Á síðustu árum hafa fulltrúar frá nærri 100 ríkjum tekið til máls innan mannréttindanefndar Sameinuðu Þjóðanna og allsherjarþings SÞ og lýst yfir stuðningi við löglega afstöðu Kína og sett sig upp á móti afskiptum af innanríkismálum Kína í tengslum við Xinjiang.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert