Kjarnorkuver í stað svimandi reikninga

Mörgum Norðmanninum snýst nú hugur í garð kjarnorku þegar rafmagnsreikningurinn …
Mörgum Norðmanninum snýst nú hugur í garð kjarnorku þegar rafmagnsreikningurinn fitnar eins og púkinn á fjósbitanum í syðri hlutum Noregs. Ljósmynd/Midjourney

Kjarnorkuver eru orðin álitlegur kostur í huga 38 prósenta Norðmanna ef marka má nýja skoðanakönnun Norstat fyrir samtökin Loftslagsvini í kjarnorkuhug eða Klimavenner for kjernekraft.

Kemur þetta til af tugprósentahækkun raforkuverðs í landinu, 23,8 prósenta sé litið til tímabilsins frá mars í fyrra þar til í mars í ár, og hefur ófá viðtölin mátt lesa síðustu misseri í norskum fjölmiðlum þar sem fjölskyldur og fyrirtæki stíga fram og segja skelfilegar sögur af rafmagnsreikningum sínum.

Í þeim hópi má taka dæmi af Hanne Blekken sem í janúar á þessu ári fékk rafmagnsreikning sem hljóðaði upp á 18.537 norskar krónur fyrir þriggja manna fjölskyldu, það gera rúmar 262.000 íslenskar krónur á gengi dagsins í dag. Í gær greindi Morgunblaðið enn fremur frá því í fréttaskýringu að tíu mínútna sturtuferð í Ósló kostaði nú sem nemur 625 íslenskum krónum en það mun gjafverð í samanburði við sturtuna hjá sumarbústaðaeigendum í Suður-, Austur- og Vestur-Noregi um þessar mundir.

Á mánudagskvöldi, þegar raforkuverð er jafnan hæst í þessum landshlutum, kostar tíu mínútna sturtuferð í sumarbústað 70 krónur sem gera 990 íslenskar krónur.

Nauðsynlegt verkfæri í umræðuna

„Ættum við að byggja nýtískukjarnorkuver geti það orðið til þess að lækka raforkuverð í Suður-Noregi?“ er spurningin sem Norstat bar upp. Í fyrra svaraði 31 prósent játandi en nú hefur það hlutfall hækkað í 38.

„Þetta er mjög jákvætt. Fólk áttar sig á því að kjarnorka er nauðsynlegt verkfæri í umræðuna um hvernig við ætlum að losa okkur úr viðjum jarðefnaeldsneytis,“ segir Tore Kanstad, stjórnarformaður Loftslagsvina-samtakanna.

Frode Pleym hjá samtökum Grænfriðunga er hins vegar ekki eins jákvæður. „Stjórnmálamennirnir eiga að leggja áherslu á það sem við vitum að virkar í Noregi og getur útvegað mikla orku á skömmum tíma. Kjarnorka er blindgata,“ segir Grænfriðungurinn sem bendir enn fremur á að kjarnorka hafi ekki áhrif á orkuverð til skamms tíma litið og sé umhverfissóðaskapur til langs tíma litið.

Lausn sem er óháð veðri

Í syðri hluta Noregs sliga rafmagnsreikningar fólk og fyrirtæki en í norðurhlutanum, þar sem hækkandi hitastig bræðir snjóinn og barmafyllir söfnunarsílóin af vatni til rafmagnsframleiðslu, er rafmagn hins vegar orðið svo ódýrt að hvort tveggja orkufyrirtækin og sveitarfélögin stórtapa á því. Þá hafa sérfræðingar bent á að rafmagnsparadísin í Norður-Noregi sé ekki eilíf. Hvað gerist þegar dregur úr snjókomu með hækkandi hitastigi?

„Við þurfum lausn sem er óháð veðri,“ segir Kanstad stjórnarformaður, „nú skiptir fólk um skoðun [á kjarnorkuverum] þegar rafmagnsverðið hækkar. Í því ástandi sem nú ríkir í Evrópu sjá æ fleiri hve háð við erum veðrinu með núverandi raforkukerfi,“ segir hann.

NRK

NRKII (of ódýrt rafmagn nyrðra)

NRKIII (viðvörun vegna snjóbráðar)

Nettavisen (262.000 króna reikningur)

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert