Krefja Þjóðverja um 184.000 milljarða í stríðsbætur

Jaroslaw Kaczynski.
Jaroslaw Kaczynski. AFP

Að mati pólskra stjórnvalda nam fjárhagslegt tap Póllands af völdum seinni heimsstyrjaldarinnar 1,3 billjónum evra, en það samsvarar um 184.000 milljörðum kr. Pólverjar hyggjast fara fram á það við þýsk stjórnvöld að samið verði um bætur. 

„Heildarupphæðin nemur 6,2 billjónum [pólskum slotum],“ sagði Jaroslaw Kaczynski, aðstoðarforsætisráðherra landsins, sem er jafnframt leiðtogi íhaldsflokksins Lög og rétt­læti. Hann sagði ennfremur að bótaferlið framundan yrði bæði erfitt og langt.

Kaczynski greindi frá þessu á ráðstefnu þar sem skýrsla um það tap, sem Pólland mátti þola í styrjöldinni, var kynnt. Í dag eru 83 ár liðin frá því þýskir nasistar réðust inn í Pólland. 

Frá því flokkurinn Lög og réttlæti komst til valda árið 2015 hefur hann oft talað um mikilvægi þess að krefjast bóta vegna stríðsins. 

Vinna við gerð skýrslunnar hófst árið 2017 þegar pólsk stjórnvöld héldu því fram að það væri siðferðisleg skylda Þýskalands að bregðast við í málinu. 

Þjóðverjar hafa ítrekað hafnað þessum kröfum. Þau vísa til ákvörðunar pólskra yfirvalda frá árinu 1953 þar sem þau ákváðu að fara ekki fram á bætur við Austur-Þýskaland. 

Kaczynski setti málið aftur á dagskrá í dag. „Við erum ekki aðeins búin að setja saman skýrslu [...] heldur höfum við einnig tekið ákvörðun, ákvörðun um frekari aðgerðir.“

Hann segir að hún snúi að því að fá Þýskaland til að semja um þessar bætur. „Og þetta er ákvörðun sem við munum fylgja eftir,“ sagði Kaczynski.

„Þjóðverjar réðust inn í Pólland og ollu hér gríðarlegu tjóni. Hersetan var ótrúlega glæpsamleg, ótrúlega grimm og hafði áhrif sem í mörgum tilvikum gætir enn þann dag í dag,“ sagði hann enn fremur. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert