Farið verði yfir gögnin

Donald Trump, fyrrverandi forseti Bandaríkjanna.
Donald Trump, fyrrverandi forseti Bandaríkjanna. AFP

Dómari hefur úrskurðað að Donald Trump, fyrrverandi Bandaríkjaforseti, fái skipaðan sérstakan réttargæslumann til að fara yfir trúnaðargögnin sem Trump hafði undir höndunum. 

Trump sætir nú rannsókn fyrir að hafa haft með sér skjöl frá Hvíta húsinu eftir að hann lét af forsetaembættinu, og snýr rannsóknin m.a. að því hvort hann hafi brotið gegn njósnalöggjöf Bandaríkjanna, og hvort hann hafi reynt að hindra framgang réttvísinnar. 

Trump höfðaði mál gegn banda­ríska dóms­málaráðuneyt­inu í síðasta mánuði og hvatti dómstóla til að til­nefna sjálf­stæðan aðila til að skoða skjöl­in sem banda­ríska al­rík­is­lög­regl­an, FBI, fann á heim­ili hans í Flórída.

Sá aðili, sem nefnist „Special Master“ á ensku, er sjálfstætt starfandi lögfræðingur sem sker úr um hvort að einhver skjalanna heyri undir trúnaðarsamning milli lögfræðings og skjólstæðings eða hvort þau falli undir trúnað sem fylgir forsetaembættinu sem á ensku kallast „executive privilege“.

Niðurstöðunni líklega áfrýjað

Litið er á niðurstöðuna sem sigur fyrir Trump en bakslag fyrir saksóknara. Fyrrum Bandaríkjaforsetinn hafði beðið um að fá réttargæslumann skipaðan, en saksóknarar höfðu stranglega mælt gegn því. Líklegt þykir að ráðning meistarans hægi á rannsókninni. 

Dómarinn bannaði einnig dómsmálaráðuneytinu að fara yfir skjölin þar til búið væri að fara yfir þau. Ekki liggur ljóst fyrir hve langan tíma yfirferðin muni taka, en talið er mjög líklegt að dómsmálaráðuneytið muni áfrýja niðurstöðunni, sem aftur gæti tafið meðferð málsins.

Fulltrúar dómsmálaráðuneytisins hafa áður sagt að skjölin sem Trump hafði komið fyrir á heimili sínu í Flórída hafi líklega verið falin til að hindra rannsókn bandarísku alríkislögreglunnar, FBI.

Yfirvöldin segja að skjölin sem um ræðir hefði átt að afhenda Þjóðskjalasafninu, en forseti Bandaríkjanna er einmitt lögskyldur til að gera það þegar hann lætur af embættinu. Trump neitar allri sök í málinu og segir að hann hafi sjálfur gert skjölin opinber og tryggt öryggi þeirra á heimili sínu í Mar-a-Lago.

mbl.is