Afhjúpa langþráð málverk af Obama-hjónunum

Obama-hjónin með málverkunum.
Obama-hjónin með málverkunum. AFP

Portrett af Bandaríkjaforsetahjónunum fyrrum, Barack og Michelle Obama, voru loks afhjúpuð í kvöld í Hvíta húsinu, meira en fimm og hálfu ári eftir að sá fyrrnefndi lét af embætti.

Um er að ræða hefð sem lagðist af í forsetatíð Donalds Trumps, þar sem málverk af fyrrum forsetahjónum eru afhjúpuð í athöfn í boði nýja forsetans og hengd upp á göngum og herbergjum Hvíta hússins.

Trump bauð Obama ekki

Sem dæmi bauð Obama forvera sínum George W. Bush og eiginkonu hans Laura Bush til athafnar árið 2012, þar sem málverk af þeim voru afhjúpuð.

Trump, aftur á móti, neitaði að bjóða Obama til slíkrar athafnar eftir að hann hann sigraði  forsetakosningarnar árið 2016, mörgum að óvörum. Lagðist hefðin því af í rúm fimm ár.

Forsetahjónin núverandi og fyrrverandi. Sjá má portrett Bills Clintons í …
Forsetahjónin núverandi og fyrrverandi. Sjá má portrett Bills Clintons í bakgrunni. AFP

Samtímalist í fyrsta skipti

Ákveðið var að fara aðra leið við gerð verkanna en tíðkast hefur í málverkum hingað til. Voru fengnir listamenn úr samtímalistasenunni í Bandaríkjunum í stað hefðbundinna portrettlistamanna.

Báðar myndirnar voru unnar út frá ljósmyndum teknar innan veggja Hvíta hússins. Myndin af fyrrum forsetanum var máluð af Robert McCurdy og er um realíska stúdíóljósmynd að ræða. Almennt taka verk McCurdy að minnsta kosti eitt ár að klára.

Málverk Michelle var málað af Sharon Sprung, sem lýsir málverkum sínum sem realískum nútímaverkum.

Málverkin tvö.
Málverkin tvö.

Ekkert vitað um málverk af Trump

Joe Biden Bandaríkjaforseti sagði við athöfnina að forsetahjónin fyrrverandi hefðu „skráð sig á spjöld sögunnar“ meðan Obama þjónaði embætti, sem fyrstu þeldökku forsetahjónin. Joe Biden var varaforseti í forsetatíð Obama og eru Obama- og Biden-forsetahjónin því miklir vinir.

Hvað varðar málverk af Trump-hjónunum, hefur Biden-ríkisstjórnin sagst ekki hafa neitt að segja um hvort og þá hvenær slíkt yrði að veruleika. Ekki er vitað hvort Trump hafi óskað eftir því.

Forsetinn fyrrverandi stendur nú frammi fyrir mögulegri ákæru eftir að Alríkislögreglan lagði hald á fjölda trúnaðargagna sem hann tók með sér úr Hvíta húsinu.

Obama og Biden eru miklir vinir eftir að þeir þjónuðu …
Obama og Biden eru miklir vinir eftir að þeir þjónuðu saman í forsetatíð hins fyrrnefnda. AFP
mbl.is