Skurðaðgerðir framkvæmdar fyrir 31 þúsund árum

Beinagrindin sem fannst í Liang Tebo-hellinum á Borneo-eyjunni árið 2020 …
Beinagrindin sem fannst í Liang Tebo-hellinum á Borneo-eyjunni árið 2020 er 31 þúsund ára gömul. AFP/Tim Maloney

Ævaforn beinagrind sem fannst í Liang Tebo-hellinum á Borneo-eyjunni í suðausturhluta Asíu sannar, að mati vísindamanna, að aflimunarskurðaðgerðir hafi verið framkvæmdar fyrir um 31 þúsund árum síðan.

Fyrir fundinn var elsta dæmi um aðgerð þar sem manneskjan var aflimuð, sjö þúsund ára gömul beinagrind sem fannst í Frakklandi.

Fundurinn bendir til þess að veiðimenn og safnarar á steinöld sem bjuggu á svæði sem heyrir í dag undir East Kalimantan-hérað í Indónesíu hafi búið yfir talsverðri þekkingu hvað varðar líkskurði og meðferð á sárum.

„Þetta kollvarpar og endurskrifar okkar skilning á þróun þessarar læknisfræðiþekkingar,“ segir Tim Maloney, fræðimaður á vegum Griffith háskólans í Ástralíu, sem leiddi rannsóknina á beinunum.

Snyrtilega gert

Beinagrindin var uppgötvuð 2020 í Liang Tebo-hellinum en á veggjum hans hafa uppgötvast 40 þúsund ára gamlar teikningar. Beinagrindin hefur varðveist vel og er í góðu ástandi en á hana vantar vinstri fótlegg og ökkla.

Þá bendir allt til að fóturinn hafi verið fjarlægður viljandi. „Þetta er mjög snyrtilegt, maður getur séð lögunina og flötinn þar sem skurðurinn var framkvæmdur,“ sagði Maloney í fréttaávarpi.

Eins og áður kom fram er beinagrindin 31 þúsund ára gömul. Hún tilheyrði manneskju sem lést um tvítugt en vísindamenn segja að viðkomandi hafi lifað í sex til níu ár eftir að skurðaðgerðin var framkvæmd

„Bendir þetta til yfirgripsmikillar þekkingar á byggingu útlima, sem og vöðva- og blóðrásarkerfa,“ segir rannsóknarhópurinn en ritgerð hans um fundinn birtist í ritinu Nature í dag.

mbl.is
Loka