Drottningin ekki á meðal þeirra ríkustu

Auðæfi Elísabetar eru ekki mikil miðað við það sem þekkist …
Auðæfi Elísabetar eru ekki mikil miðað við það sem þekkist annars staðar. AFP

Elísabet II. Bretadrottning var ávallt glæsileg til fara og bar dýra skartgripi en þrátt fyrir það eru auðæfi hennar smáræði miðað við það sem sést hjá öðrum konungsfjölskyldum. 

Nettóeignir hennar eru taldar vera 370 milljónir punda, eða það sem nemur 62 milljörðum króna – slík upphæð fæst með því að draga skuldir þess sem um ræðir frá eignum. Auðæfi hennar skiluðu henni ekki sæti á lista Sunday Times yfir 250 ríkustu manneskjur Bretlands. 

Taílenska konungsfjölskyldan er til samanburðar metin á tæplega 8 og hálfa billjón íslenskra króna og sú sádi-arabíska um þrjár billjónir.

Kostnaður fjölskyldunnar 14,5 milljarðar

Auðæfi bresku konungsfjölskyldunnar koma úr vösum breskra skattgreiðenda en á sama tíma risavöxnu eignasafni hennar. Árlegir ríkisstyrkir frá ríkissjóði Bretlands náðu yfir opinberan kostnað drottningarinnar og annarra meðlima konungsfjölskyldunnar.

Á árunum 2020 til 2021 var sú upphæð um 14,5 milljarðar króna þegar taldar eru með endurbætur á Buckingham-höll sem kostuðu 5,7 milljarða. Um 15% af hagnaði konungsfjölskyldunnar kemur frá fyrrnefndum ríkisstyrk en stórar lóðir, eignir og lönd í eigu fjölskyldunnar eru aðskildar styrknum. 

Í eigu fjölskyldunnar frá miðöldum

Nýverið voru styrkir til konungsfjölskyldunnar hækkaðir vegna framkvæmda í Buckingham-höll en einnig vegna launakostnaðar starfsliðs konungsfjölskyldunnar. Skiptir starfsfólkið hundruðum. 

Sjálfsaflafé fjölskyldunnar (e. private income), sem er nefnd The Privy Purse, kemur að mestu leyti frá eignasjóðnum Duchy of Lancaster, sem hefur verið í eigu hennar síðan á miðöldum. Eignir sjóðsins eru meðal annars lóðir, hlutafé og eignir sem eru metnar á yfir 84 milljarða króna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert